137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

heimahjúkrun.

[13:55]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á þessu svari. Mér fannst í byrjun svarsins eins og hæstv. ráðherra væri að segja að þetta væri ekki rétt, þ.e. að heimahjúkrun og öll þjónusta við aldraða á hjúkrunarheimilum færist til félags- og tryggingamálaráðuneytisins. En eftir því sem leið á svar ráðherrans varð ég eiginlega sannfærður um að þetta væri rétt, að þetta væri að færast til félags- og tryggingamálaráðuneytisins.

Ég vildi bara fá það skýrt hvort það sé þannig að færa eigi alla þjónustu við aldraða á hjúkrunarheimilum — það eru að vísu fleiri en aldraðir á hjúkrunarheimilum en þó er langstærsti hlutinn aldraðir — er verið að færa þá þjónustu og heimahjúkrunina til félags- og tryggingamálaráðuneytisins? Ef svo er, hvenær?