137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

málefni garðyrkjubænda.

[13:58]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um málefni garðyrkjunnar, um leiðréttingu á flutningskostnaði raforku og um aðgerðir í þágu garðyrkjunnar sem geri henni kleift að vera hin græna stóriðja, fjölga störfum, framleiða gjaldeyrissparandi, heilnæma og holla matvöru. Sérstaklega finnst mér áhugavert, frú forseti, að heyra álit hæstv. landbúnaðarráðherra í ljósi umræðna sem orðið hafa á liðnum árum og m.a. eftirfarandi ummæla sem höfð eru eftir hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

„Gróðurhúsaframleiðslan ætti mikla möguleika hér á landi ef hún nyti jafnréttis við erlenda stóriðju.“

Þessi orð féllu í nóvember 2006 vegna fyrirspurnar um sama málefni.

Nú fer garðyrkjan ekki fram á að kaupa raforkuna á sama verði og stóriðja heldur að hún sé skilgreind sem stórnotandi og þess sjái stað í gjaldskrá sem m.a. þarf samþykki hæstv. iðnaðarráðherra. Í iðnaðarráðuneytinu er sagt að málefni garðyrkjunnar séu á hendi landbúnaðarráðuneytisins. Vandamálið virðist vera reglugerðarbreyting þar sem m.a. þarf að skilgreina mun á dreifbýli og þéttbýli og ef garðyrkjustöð er innan þéttbýlis þar sem búa innan við 200 íbúar eða fleiri kaupir garðyrkjubóndinn raforkuna á flutningsgjaldi sem er lægra en ef hann byggi í dreifbýli. Þessi mismunun er þeim mun óskiljanlegri þar sem ein garðyrkjustöð, t.d. ylræktarstöð á Flúðum, notar meira rafmagn en Eyrarbakki og Stokkseyri til samans. Það liggur í hlutarins eðli að það er ódýrara að afhenda rafmagn á einum stað en til nokkur hundruð staða.

Í áðurnefndri fyrirspurn var fyrirspyrjandi hv. 1. þm. Suðurkjördæmis og deilum við áhyggjum af stöðu garðyrkjunnar.

Í ljósi þess er áhugavert að rifja upp orð hæstv. núverandi iðnaðarráðherra, flokkssystur fyrrum fyrirspyrjanda, við sama tilefni þar sem segir, með leyfi frú forseta:

„Ég tel að það eigi að koma til móts við garðyrkjuframleiðendur í landinu og lækka raforkuverð til þeirra vegna þess, eins og ég kom inn á í upphafi, að það er mjög stórt hagsmunamál fyrir íslenska neytendur að þeir fái hér íslenskt grænmeti á sanngjörnu og góðu verði.“