137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

málefni garðyrkjubænda.

[14:00]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir spurningu um garðyrkjuna. Mikið hefði ég viljað að hv. þingmaður hefði verið hér á þingi þegar Framsóknarflokkurinn var í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum (Gripið fram í.) og innleiddi raforkutilskipunina og samkeppnisumhverfi í raforkumálum frá Evrópusambandinu sem átti ekkert erindi hingað. Þar hófust þessi uppskipti í samkeppnisþætti, (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Ætlarðu að svara?) þ.e. að skapa samkeppnisumhverfi, og þar voru einmitt atvinnuvegir dreifbýlisins eins og garðyrkjan sem býr núna við skertan hlut.

Ég tel að á þessu eigi að taka. Ég hef óskað eftir því að hitta forsvarsmenn garðyrkjubænda í næstu viku þar sem ég mun heyra sjónarmið þeirra og hvað þeir leggja til. Eins og hv. þingmaður kom inn á heyrir þetta mál undir fleiri ráðherra, bæði iðnaðarráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Ég minni á að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar stendur, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að mótuð verði heildstæð atvinnustefna fyrir Ísland, byggð á jafnræði atvinnugreina, …“

Ég tek heils hugar undir þær áherslur hv. þingmanns að það er engin meining að álfyrirtækin eigi að njóta algerra sérkjara hvað varðar raforkuverð og að aðrar atvinnugreinar eins og garðyrkjan eigi þar ekki líka möguleika og reyndar annað atvinnulíf í dreifbýlinu. Ég tek alveg heils hugar undir áskorun hv. þingmanns og lofa því að ég mun kanna þetta mál.