137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

málefni garðyrkjubænda.

[14:02]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Varðandi tilskipun Evrópusambandsins er áhugavert í ljósi umræðna hér í gærkvöldi að velta því fyrir sér hvort við ættum e.t.v. að sækja um undanþágu frá þessari tilskipun eða hvort við ættum að ganga í Evrópusambandið og taka upp allar tilskipanir þar að lútandi.

Ég vil líka minna á að það voru iðnaðarráðherra og landbúnaðarráðherra Framsóknarflokksins sem komu í veg fyrir að þessi hækkun gengi yfir til garðyrkjunnar en hún skall síðan á í vetur og það er í höndum hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og hæstv. iðnaðarráðherra að gera eitthvað í málinu.

Varðandi þau orð sem féllu í ræðu minni fyrr finnst mér, virðulegur forseti, að það hljóti að teljast góðar líkur til þess að hæstv. landbúnaðarráðherra geti komið einhverjum þeim breytingum í gegnum ríkisstjórnina sem gagnast þessari stóru grein í stóriðju að byggja hér upp störf. Ég get heitið stuðningi framsóknarmanna til þess að standa (Forseti hringir.) duglega að baki ríkisstjórninni til þeirra áforma.