137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[14:18]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ef það liggur í orðum hv. þingmanns að einhver óski sér þess að málin hafi farið í þann farveg á Íslandi sem raun ber vitni þá er það misskilningur. Ég er ekki að mæla fyrir þessu frumvarpi af neinni sérstakri ánægju heldur af brýnni þörf vegna aðstæðna sem upp eru komnar í samfélaginu og við verðum að horfast í augu við. Mikill fjöldi fyrirtækja á í erfiðleikum, bæði stór og smá, þar á meðal mjög mörg þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki. Bankarnir hafa verið að yfirtaka þau hvert á fætur öðru á undanförnum dögum.

Þetta er bara spurning um fyrirkomulag og hvers konar tæki eru árangursríkust í þeirri glímu við þá erfiðleika sem við þurfum að vinna okkur út úr, og hvernig svona atvinnustarfsemi verður best komið á fætur á nýjan leik og hún sett út í lífið. Það er ekki markmiðið að ríkið eigi þetta lengur en óumflýjanlegt er og það er bitamunur en ekki fjár hvort eignarhaldið er tímabundið í höndum banka í eigu ríkisins eða sérhæfðs fyrirtækis sem sérhæfir sig í því að endurskipuleggja fyrirtækin og koma þeim aftur út á (Forseti hringir.) markaðinn. Þar kemur að þátttöku utanaðkomandi aðila, fjárfesta, lífeyrissjóða, Kauphallarinnar og fleiri slíkra aðila sem að sjálfsögðu þarf að eiga síðan samstarf við um endurfjármögnun (Forseti hringir.) og endurskipulagningu þessara fyrirtækja þegar þau eru komin út í lífið.