137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[14:31]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna að ég verð ekkert sérstaklega róleg við þetta vegna þess að talað er um í ræðustóli að maður eigi ekki að hlusta á einhverja aðila úti í bæ. Ég veit ekki betur en þessir aðilar muni hugsanlega geta komið að þessum fyrirtækjum. Sagt er að vinnumarkaðurinn í heild og lífeyrissjóðirnir hafi komið með miklar athugasemdir við þetta frumvarp á síðasta þingi og nefnt að þeir væru tilbúnir að koma að stofnun endurreisnarsjóðs atvinnulífsins. Væntanlega er þá talað um að koma með fjármagn til að setja inn í þessi fyrirtæki en núverandi ríkisstjórn virðist hugnast svo vel hugtakið þjóðnýting að hún er ekki tilbúin til að hægja aðeins á sér og sjá að hægt er að fara þá leið sem aðilar vinnumarkaðarins leggja til og hafa sagt að þeir séu tilbúnir að gera. Þeir hafa sett ákveðin skilyrði eins og það að rætt væri við þá og leitað lausna varðandi uppgjör við bankana um (Forseti hringir.) gjaldeyrisskiptasamninga. Ég ítreka að mér finnst mikið áhyggjuefni (Forseti hringir.) að ekki skuli hlustað á svo mikilvæga menn eins og ýmsa í okkar samfélagi og aðila vinnumarkaðarins.