137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[14:45]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það var margt athyglisvert í ræðu hv. þingmanns og ég er sammála ýmsu í greiningu hans á þessu. Það er alveg hárrétt að þær tvær meginaðferðir sem hér eru uppi — annars vegar að stofna banka til að taka við erfiðustu verkefnunum, það er ekki sú leið sem hér er farin. Það helgast augljóslega mikið af þeirri leið sem valin var í október í uppgjörinu milli gömlu og nýju bankanna. Menn sjá ekki ástæðu til að stofna sjöunda bankann í eigu ríkisins. Við getum sagt að við séum með þrjá vandamálabanka og þrjá nýja banka nú þegar og ég tel ekki ástæðu til að bæta þeim sjöunda við.

Hér er eingöngu um það að ræða að þetta tæki gæti reynst gagnlegt í tilvikum sem eru bönkunum sem slíkum erfið úrlausnar. Við getum tekið þar dæmi um fyrirtæki sem eru í viðskiptum og eiga hagsmuna að gæta hjá öllum bönkunum þremur eða jafnvel bæði í gömlu og nýju bönkunum og hverra úrlausnarefni geta reynst mjög flókin og jafnvel hverjum einum banka um sig, ofviða. Það er líka það sjónarmið að ekki sé heppilegt að bankarnir séu til lengdar eigendur að fyrirtækjum í samkeppnisrekstri. Það skapar mikil vandamál. Endurskipulagningarleiðin í gegnum banka er heldur ekki án vandkvæða eins og við erum m.a. minnt á þessa daga. Það er alveg hárrétt að menn velta því fyrir sér að erfitt sé að tryggja þessa armslengd frá hinu pólitíska valdi. Það má segja um mjög margt sem við gerum. Hvernig göngum við frá því? Með því að kosin er stjórn og það sé tryggt í lögum að fyrirtækið starfi síðan sjálfstætt á grundvelli laga og reglna sem því eru settar af Alþingi og eftir atvikum framkvæmdarvaldi í reglugerð.

Hv. þingmaður óttast pólitíska spillingu eða pólitíska íhlutun. Það má kannski segja að sporin hræði. Það er ekki allt fallegt sem kemur upp úr pokunum þessa dagana, þessar vikurnar og þessa mánuðina úr því fyrirkomulagi sem var. Það má kannski leyfa einhverjum að njóta vafans og spyrja: Menn gerðu mistök í Mexíkó eða Gana en stóðu sig sæmilega vel í Svíþjóð, gætum við þá ekki trúað því að við yrðum þeim megin í tilverunni og gerðum þetta vel?