137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[15:05]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla fyrst að svara spurningu hv. þingmanns um stjórnarskipunina. Það er útskýrt í frumvarpinu og umsögn um 5. gr. hvernig hún er hugsuð. Það er einfalt, fyrst og fremst er gert ráð fyrir faglegri skipan þessarar stjórnar á grundvelli skilgreindra hæfniskrafna, menn skulu hafa haldgóða menntun og sérþekkingu á fjármálum og rekstri fyrirtækja og uppfylla allar kröfur, vera lögráða, hafa ekki verið úrskurðaðir gjaldþrota, hlotið dóm i tengslum við atvinnurekstur samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum og lögum um fjármálafyrirtæki, hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga eða gjaldþrot. Þetta eiga að vera valinkunnir sómamenn með staðgóða þekkingu og menntun á viðkomandi sviði, sá er útgangspunkturinn.

Má ég aftur leggja áherslu á að við þetta frumvarp þurfti að skoða ýmis mismunandi sjónarmið í þessum efnum, bæði þá ráðgjöf sem stjórnvöld höfðu fengið og sjónarmið bankanna sem eðli málsins samkvæmt verður að vinna þetta í samstarfi við ef það á að ná tilgangi sínum. Ég held að það hafi í aðalatriðum tekist vel þó að það sé rétt sem hv. þingmaður hefur nefnt, að ýmis sjónarmið frá aðilum vinnumarkaðarins, sérstaklega frá atvinnurekendum, voru önnur en þau sem birtast í frumvarpinu. Í frumvarpinu er fyrst og fremst gert ráð fyrir því að ef það reynist hagkvæmara fyrirkomulag og vænlegra til árangurs að slíkt sérhæft faglegt eignaumsýslufélag annist verkefnin í stað banka sem eru komnir með þau á sínar hendur, ekki vegna þess að neinn hafi óskað sér þess heldur vegna þess að aðstæður urðu slíkar, eru það nokkurn veginn örugglega bankar í eigu hins sama ríkis. Hvernig er þeim stjórnað? Fjármálaráðherra setur þeim stjórn og þar sitja nú bankaráð sem voru skipuð samkvæmt tilnefningum frá þingflokkunum sem eiga fulltrúa á Alþingi. Pólitíkin er þar ekki langt undan. Ætli það geti ekki verið ýmis hagsmunatengsl og ýmsir erfiðleikar sem líka þarf að hafa í huga í þeim efnum?

Mér finnst að menn ættu kannski að skoða þetta bara yfirvegað og velta fyrir sér (Forseti hringir.) hvort þetta sé endilega varhugaverðara fyrirkomulag en hin leiðin sem þá verður þó farin í aðalatriðum, að bankarnir annist um þessa (Forseti hringir.) skuldaúrvinnslu og endurskipulagningu fyrirtækjanna.