137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[15:08]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það stendur mjög skýrt í frumvarpinu hverjar hæfniskröfur til stjórnarmanna eiga að vera, en fyrirspurn mín var: Hvaðan eiga þeir að koma? Ég spurði hæstv. ráðherra hvort hann teldi það koma til greina að aðilar úti í samfélaginu, aðilar á vinnumarkaði, mundu tilnefna í stjórn þessa félags úr Seðlabankanum, svo dæmi sé tekið, hvort til greina komi að einhverjir aðrir en sjálfur hæstv. ráðherrann skipi fulltrúa í stjórn þessa fyrirtækis ef af stofnun þess verður.

Ég ítreka líka spurningu mína varðandi skuldbindingar sem þessi stjórn mun geta skuldbundið íslenskan ríkissjóð fari hlutirnir illa. Ætlum við þingmenn að afgreiða héðan frumvarp sem veitir fimm manna stjórn úti í bæ opinn tékka á það með hvaða hætti íslenskur ríkissjóður, íslenskir skattborgarar, verður skuldbundinn? Það er mikilvægt að við fáum svör við því hvort þetta félag eigi að hafa algjörlega frjálsar hendur með hvernig það gengur í ábyrgðir fyrir hönd íslenskra skattgreiðenda.

Í þriðja lagi spyr ég hæstv. ráðherra hvernig hann rökstyður að ríkið eigi eitt að koma að stofnun þessa félags þegar það er ljóst að aðilar vinnumarkaðarins og lífeyrissjóðirnir vilja koma að því til þess að gera allt gegnsærra í ferlinu, eyða einhverri tortryggni sem er í samfélaginu. Hvaða rök eru fyrir því að ríkið eigi eitt að koma að þessu fyrirtæki? Ég vil bara heyra þann rökstuðning. Hæstv. ráðherra hefur einfaldlega ekki getað rökstutt sannfærandi að fimm fulltrúar í hans umboði eigi að „víla og díla“ um alla þessa hluti.

Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra segir: Sporin hræða. Þau hræða hjá öllum stjórnmálaflokkum sem hafa verið við lýði á undangengnum áratugum, öllum. Við viljum upphefja ný vinnubrögð á vettvangi þingsins. Það er þess vegna dapurlegt að það skuli vera fyrsta málið, forgangsmálið, hjá nýrri ríkisstjórn, að ríkisvæða atvinnulífið upp á nýtt og að pólitískir fulltrúar (Forseti hringir.) eigi að skipa og ráða og „víla og díla“ um hverjir eigi að lifa á markaðnum og hverjir deyja.