137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[15:10]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það þjónar kannski takmörkuðum tilgangi að ræða þetta á þessum nótum. Er það ekki ríkisvæðing í augum hv. þingmanns sem gerðist í fyrrahaust þegar ríkisbankar voru stofnaðir upp úr hruni gömlu bankanna? Það voru aðrir sem stóðu fyrir því, var það ekki? Það var ekki af því að einhver óskaði sér þess eða vildi það, það var bara svo komið að ekki var annað hægt til að tryggja ákveðna starfsemi í landinu.

Ég held að það sé heldur ekki þannig að þessir nýju bankar í eigu ríkisins yfirtaki fyrirtæki vegna þess að þá langi til þess að ráðskast með þessi félög, heldur vegna þess að aðstæður eru bara þannig orðnar að það er óumflýjanlegt til að reyna að bjarga verðmætum og tryggja tiltekna starfsemi. Það gerir það enginn að gamni sínu, að ég held. Eigum við ekki að tala um veruleikann eins og hann er? Það er ágætt að fara í pólitískar skylmingar en við skulum ekki gera það í einhverjum tilbúnum sýndarheimi sem er einhvern veginn allt öðruvísi en veruleikinn. (Gripið fram í.) Það gerir þetta enginn að gamni sínu, hv. þingmaður, þetta eru ekki aðstæður sem neinn hefur óskað sér að vera í, allra síst sá fjármálaráðherra sem hér stendur. Það er ekki af einhverri löngun vegna þess að mig langi til að skipa einhverja fulltrúa í stjórn til að ráðskast með atvinnulífið sem þetta er gert. Þetta eru ekki aðstæður sem voru búnar til af einhverri lævísi til þess að geta svo gert þetta, eins og mér finnst hv. þingmaður næstum því vera að skálda upp. Það er ekki þannig.

Það er ekki gert ráð fyrir því að skuldbindingarnar verði neinar umfram það sem orðið er þegar bankar í eigu ríkisins neyðast til að leysa til sín eign í fyrirtækjum vegna þess að fyrirtækin eru komin í þrot. Af jafnræðisástæðum er það ekki bundið við ríkisbankana, heldur er sagt að þeir eða önnur fjármálafyrirtæki kynnu að óska þess að afhenda þessu félagi verkefni. Það væri hæpið að banna það og binda þetta eingöngu við þau verkefni sem eru til úrlausnar hjá bönkum í eigu ríkisins. Það er ástæðan fyrir því að það er þannig orðað.

Í þriðja lagi er það (Forseti hringir.) bara fyrirkomulagsatriði ef einhver áhugi væri á því að hafa einhverja meðeigendur ríkisins að þessu eignaumsýslufélagi. Ég held að aðalatriðið sé að fá lífeyrissjóði og fjárfesta til samstarfs (Forseti hringir.) um úrlausn málanna, um hið nýja eignarhald fyrirtækjanna, um að koma þá að þeim (Forseti hringir.) þegar þau hafa verið endurreist.