137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[15:12]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og svo því sé til haga haldið var ekki meining mín að gefa í skyn að hæstv. ráðherra væri illviljaður maður. Þvert á móti tel ég að ráðherrann hljóti að vera að gera sitt besta til að stuðla að framförum hér á landi svo að það sé á hreinu hvað mér finnst.

Það sem ég gerði hins vegar var að spyrja hæstv. ráðherra spurninga og mér finnst ákveðin tímamót í þeim svörum sem komu fram. Hæstv. ráðherra sagði efnislega að það væri ekkert keppikefli af hans hálfu að skipa einhverja sérstaka fulltrúa í stjórn þessa félags. Hæstv. ráðherra hlýtur þá að vera að opna á það að einhverjir aðrir aðilar utan úr samfélaginu geti tilnefnt í stjórn þessa félags. Það er framfaraefni að mínu viti. Það er líka mikil opnun á málið af hálfu hæstv. ráðherra að aðrir aðilar megi koma að stofnun þessa félags og koma að því. Það er einmitt það sem aðilar vinnumarkaðarins hafa reynt að ræða við ríkisstjórnina á undanförnum vikum þannig að ég á von á því að þegar þetta mál kemur á borð efnahags- og skattanefndar skoðum við þær breytingar, hvort hægt sé að bæta málið með þeim hætti að hleypa fleiri aðilum að. Ég tel að hæstv. ráðherra hafi opnað á breytingar á frumvarpinu og reyndar er það svo að málið er núna formlega komið til þingsins. Hver og einn þingmaður mun á grundvelli sannfæringar sinnar greiða atkvæði um breytingartillögur á þessu frumvarpi þannig að ég hef trú á því að þingmenn stjórnar og stjórnarandstöðu séu einungis bundnir af sannfæringu sinni í þessu máli eins og öllum öðrum málum.

Ég á von á því að öllu óbreyttu að þetta mál hljóti að taka einhverjum breytingum í þingnefnd ef við ætlum á annað borð að taka mið af því sem sagt er úti í samfélaginu, sérstaklega aðilum vinnumarkaðarins, og reyna að taka eitthvert mark á þeim ábendingum sem samfélagið kemur með til okkar þingmanna til að gera það mál sem við ræðum hér miklu betra en það er vegna þess að þetta er ekki gott mál.