137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[15:26]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að enginn efist um vandamálið sem við stöndum frammi fyrir með þessi fyrirtæki í landinu sem eru komin flest niður á hnén í kjölfar hrunsins í október. Þessi umræða snýst alls ekki um það, heldur hvort sú leið sem menn eru að tala um þjóni þeim tilgangi sem flutningsmenn eða ríkisstjórnin telur.

Ég hef talið hér upp nokkur dæmi um það þar sem þessi leið með eignaumsýslufélag var farin sem mistókust hrapallega. Ég nefndi líka dæmi um tvö félög í Svíþjóð sem tókust mjög vel en þau voru einfaldlega annars eðlis vegna þess að þau tóku yfir lánasöfn, 80% af eignunum sem þau tóku yfir voru lánasöfn. Það er því ekki hægt að bera það saman.

Punkturinn sem ég er að reyna að koma til skila er sá að sporin hræða. Það er ekki góð reynsla af slíkum félögum og sérstaklega ekki þegar búið er að sjóða saman einhvern séríslenskan leiðarvísi. Þetta verður að vera miklu betur ígrundað og taka miklu meira mið af þeirri reynslu sem aðrar þjóðir hafa af þessu. En það er rétt að ítreka að enginn efast um vandamálið og það er alls ekki verið að gera lítið úr því.