137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[15:31]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það voru ekki einvörðungu lánasöfn sem tekin voru yfir í Svíþjóð, ég held að það hafi verið í 80% tilvika. Þau 20% sem eftir standa, sem voru fyrirtækin, voru auðvitað gríðarlega mikil umfangs. Ég held að það verði athyglisvert fyrir okkur að bera saman umfangið af þeirri yfirtöku við það sem hér kynni að verða, sem vonandi verður þó sem minnst, og einnig að kynna okkur reynsluna af Arsenal, finnska eignarhaldsfélaginu, og heyra þau sjónarmið sem fram eru færð með eða á móti. En ég bara undirstrika að ég held að það sé algerlega ótvírætt og það hafi að minnsta kosti komið í ljós þegar bankarnir voru í einkaeigu að ýmis vandkvæði hafi verið við það að viðskiptabankar væru beint í eignarhaldi á fyrirtækjum á markaði.

Ég held að með alveg sama hætti geti verið á því alvarlegir annmarkar að eignarhald á stórum lykilfyrirtækjum í samfélaginu sé í gegnum ríkisbankana þó að þeir séu í eigu ríkisins. Þar geta auðvitað verið árekstrar sem betra væri að fara fram hjá og tryggja gagnsæi og aðskilnað og þessa armslengd sem er þó sannarlega auðveldara um að tala en í að komast. Það verður verkefni okkar í efnahags- og skattanefnd að liggja yfir hvernig tryggja megi hana.