137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[15:33]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að lykilatriði í þessu efni sé að vanda sig afskaplega vel, sporin hræða vissulega. Ég tek undir margt það sem ráðherra hefur sagt hér, hann er ekki í neinni óskastöðu að takast á við þennan vanda.

En ég held að það sé líka mjög brýnt fyrir nýtt þing að menn hlusti vel hver á annan og taki vel ábendingum hvaðan sem þær koma, jafnt frá þeim sem hér hafa talað og öðrum sem kunna að tala hér á eftir. Við þurfum á öllum góðum ráðum að halda og við megum ekki í krafti flokkspólitíkur útiloka skoðanir hvaðan sem þær koma.

Hér þarf fyrst og fremst að vanda mjög til verka, hlusta á sjónarmið hver annars og í reynd er ekki hér um flokkspólitískt mál að ræða. Ég held að hér sé um þverpólitískt mál að ræða. Við viljum koma þessum fyrirtækjum aftur út á markað þar sem þau eiga heima. Hér eru fyrirtæki, mörg hver mikilvæg og mörg hver algerlega lífsnauðsynleg fyrir hjarta samfélagsins, sem þurfa að komast á legg aftur með öllum ráðum. Í því efni ber okkur að vanda okkur og tala okkur að niðurstöðu að fenginni hjálp allra sem hér eru innan dyra og utan húss. Þar hefur flokkspólitíkin ekkert með lausnirnar í sjálfu sér að gera.

Við erum einfaldlega að tala um mál sem við þurfum öll að taka á með þeim rökum sem duga og með þeim ráðum sem helst eru uppi á borðum. Þess vegna fagna ég því að menn komi hér og geri athugasemdir við þetta vegna þess að ég held að við eigum ekki að vera í þeirri pólitík að hleypa svona máli sjálfkrafa í gegn.