137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[15:37]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér aftur frumvarp til laga um stofnun hlutafélags til að stuðla að endurskipulagningu þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

Hæstv. fjármálaráðherra flutti ágæta ræðu um þetta. Ég vil þakka honum fyrir hana og óska honum til hamingju með starfið. Ég vona að hann standi sig vel í starfi fyrir land og þjóð. Einnig vil ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni, sem fór yfir kosti og galla slíkra félaga víða um heim, og gat þess sérstaklega að í Svíþjóð hefði tekist vel til, enda var þar um að ræða fasteignafélög eða veðskuldabréf sem voru með veði þar sem var þá ákveðinn „substans“, ef nota má það orð á íslensku, á bak við eignina. Hér á Íslandi erum við hins vegar oft og tíðum með fjárfestingarfélög sem fengu lán til að kaupa hlutabréf. Þegar hlutabréfin lækka í verði og lánið jafnvel hækkar þá er enginn „substans“ í þessum fyrirtækjum. Þess vegna verður afskriftarhlutfallið svona óskaplega hátt eins og menn sjá.

En ég vil endilega vera jákvæður gagnvart þessu frumvarpi, ég ætla að reyna það alla vega. Ég vil geta þess að skaðinn er skeður, fyrirtækin eru komin í ríkisvæðingu, þau eru í eigu ríkisins. Ég hef bent á það nokkrum sinnum í gegnum tíðina að við settum lög fyrir nokkru um svokölluð ohf.-félög eða opinber hlutafélög. Þau lög eru afskaplega afdráttarlaus og gefa ekkert svigrúm. Það stendur bara að félög sem eru í eigu opinberra aðila skuli heita ohf., engrar undankomu er auðið.

Bankarnir eru allir saman ohf., samkvæmt þeim lögum. Ég get ómögulega skilið neitt annað. Samkvæmt því á að vera kynjajafnrétti í stjórnum. Blaðamenn, fréttamenn og kjörnir fulltrúar eiga rétt á að mæta á aðalfundum o.s.frv. Ég hef jafnvel varpað þeirri spurningu fram hvað gerist ef ekki reynist hafa verið staðið rétt að aðalfundum. Eru þá stjórnirnar ekki rétt kjörnar? Eru allar aðgerðir þeirra óréttmætar? Ég ætla því að biðja menn að fara mjög nákvæmlega, hæstv. ráðherra, í gegnum þetta enn einu sinni. Hvort það sé ekki alveg kristaltært að þetta séu ohf.-fyrirtæki allt saman. Og ekki bara bankarnir heldur líka þau fyrirtæki sem þeir eignast. Öll hlutafélög sem bankarnir eignast með því að taka þau yfir eru þá orðin ohf.

Vandamálið í nefndinni síðast var um fyrirbærið „þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki“. Það fékkst aldrei neinn botn í það. Það er reyndar búið að skerpa dálítið á því núna hvað þetta fyrirbæri þýðir. Eru skipaflutningar t.d. þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki? Mér skilst að hægt sé að panta skip eftir hádegi til að sigla til Íslands, það er ekki meira þjóðhagslegt mikilvægi í því ef eitthvert skipafélag fer á hausinn, ekki geta þau verið þjóðhagslega mikilvæg.

Það eina sem ég sé fyrir mér eru kannski fjarskiptafyrirtæki. Þau gætu hugsanlega verið þjóðhagslega mikilvæg ef maður túlkar þetta þröngt. Sumir hafa bent á það — það er kannski meira djók, frú forseti — að kók sé vissum aldurshópi á Íslandi afskaplega mikilvægt. Sá aldurshópur gæti lent í miklum vandræðum ef hann fengi ekki kókið sitt. Þetta sýnir hvað það er erfitt að túlka hvað eru þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki. Ef maður túlkar þetta þröngt þá er þetta nánast ekkert, ef maður túlkar þetta vítt þá er þetta nánast allt. Sá er eiginlega vandinn við frumvarpið.

Við ræddum þetta mikið í vetur í nefndinni. Minni hlutinn, sem ég myndaði ásamt hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur, fór í gegnum umsagnirnar, sem eru allar meira og minna neikvæðar. Þeir aðilar sem gáfu umsögn, bæði ASÍ og fleiri, benda á að menn hafi ætlað að setja á fót endurreisnarsjóð á vegum lífeyrissjóðanna sem ætlað var sama hlutverk og hér er ætlað ríkinu. Það var reyndar dálítið víðtækara, ekki af þjóðhagslegum mikilvægum fyrirtækjum heldur fyrirtækjum almennt. Við ræddum það líka, og ég vil gjarnan að ráðherrar hlusti á það — mér finnst að það eigi að leyfa almenningi að koma að þessu líka og kem ég betur inn á það á eftir.

Hvað gerist við gjaldþrot fyrirtækis? Hvað skyldi gerast? Er fyrirtækið verðlaust? Alls ekki. Fyrirtækið er nefnilega alls ekki verðlaust. Yfirleitt ekki. Stjórnendurnir hafa ákveðna stjórnunarþekkingu í fyrirtækinu og við hefðbundið gjaldþrot fer sú stjórnunarþekking forgörðum. Það er mjög miður. Starfsmennirnir hafa ákveðna reynslu af störfum hjá fyrirtækinu, mjög verðmæta. Það má segja að þröngt séð sé fyrirtækið ekkert annað en starfsmennirnir. Við gjaldþrot flosnar sú eign öll upp, oft og tíðum. Þess vegna er mjög mikilvægt fyrir kröfuhafa að halda rekstrinum gangandi og reyna að finna út þau verðmæti sem eru í fyrirtækinu, þ.e. stjórnunarþekkingin, öll tengslin, tengslin við birgja í útlöndum, einkaumboð og annað slíkt. Þessum verðmætum þarf að viðhalda, það er mjög mikilvægt.

Ef menn ganga þvert á hag eigendanna og segja: Þið bara farið, burt með ykkur, eins og er hefðbundið þá sjá þeir sér leik á borði og stofna bara nýtt fyrirtæki, hringja í vini sína úti í Þýskalandi eða í Evrópu, sem þeir eru með umboð fyrir, og öll umboðin skipta um hendur. Bestu starfsmennirnir eru ráðnir í nýja fyrirtækið og eftir stendur tóm og gersamlega verðlaus skel. Þetta er það sem við verðum að reyna að hindra og þess vegna þurfa menn að búa til reglu, einhverjar almennar reglu, sem metur þessi verðmæti og eftirlætur eigendunum einhvern möguleika á því að vinna fyrirtækið sitt til baka. Ef þeir leggja hart að sér, ef þeir borga nægilega mikið fyrir það seinna meir, borga upp í kröfuna jafnvel — ef þeir hafa hvata til þess, ef þeir eru látnir hafa hvata til þess, getur verðmæti fyrirtækisins orðið miklu meira en við einfalt gjaldþrot þar sem allt fer í vaskinn.

Það má kannski segja að gjaldþrotalögin núna taki ekkert mið af þessu. Þau skella þessu bara öllu í gjaldþrot, stjórnin burt, starfsmennirnir burt og allt ónýtt. Af því að það er svo mikið af gjaldþrotum og þetta er orðið svo víðtækt verða menn að fara að finna leiðir til að viðhalda þeim verðmætum sem felast í stjórnun, tengslum, starfsmönnum o.s.frv. Ég skora á hv. nefnd, sem fær þetta til umsagnar, og sem ég á sæti í, að ræða hvernig hægt er að koma inn í þetta fyrirtæki eða önnur, sem eru að vinna svipað, eða í bönkunum, einhvers konar leið til þess að viðhalda þeim verðmætum sem eru í fyrirtækjunum.

Það hefur líka töluvert verið rætt um skuldbindingu samkvæmt 7. gr. — 20 millj. kr. eru nú ekki mikið. Ég mundi segja að það væri ekki mikið ef menn ætla að bjarga einhverju almennilegu fyrirtæki. Það er greinilegt af frumvarpinu að það er miklu meira á bak við þetta. Menn hljóta að ætla sér að setja í þetta umtalsverðar upphæðir, ekki einhverjar 20 millj. kr. Þannig að það væri skemmtilegt og eiginlega nauðsynlegt fyrir Alþingi sem fjárveitingavald að vita hvað er meiningin að setja mikið fé inn í þetta. Eru einhver efri mörk fyrir það? En það er ekki í frumvarpinu, það eru bara 20 millj. kr. sem er mjög lítið.

Eins og ég gat um áðan eru umsagnirnar allar meira og minna neikvæðar. Reyndar er ein og ein jákvæð en flestar voru neikvæðar og þá vegna þess að menn sáu að möguleikar á því að lífeyrissjóðirnir og aðrir aðilar kæmu að þessari endurreisn eru fyrir bí. Alla vega hvað varðar þessi þjóðhagslega mikilvægu fyrirtæki sem enginn veit hversu vítt verður túlkað. Það finnst mér að þurfi að ræða betur. Ég mundi gjarnan vilja að nefndin ræddi líka hvort aðrir aðilar ættu ekki að geta komið að þessu máli líka.

Það hefur farið hljótt og ekki hefur mikið verið rætt um það, frú forseti, að innlán á Íslandi hafa aukist alveg gífurlega, sem er afskaplega jákvætt. Venjulegur launamaður gerir ekki nema tvennt við launin sín. Annaðhvort eyðir hann þeim í ferðalög eða mat, fer út að borða eða kaupir sér bíl eða eitthvað svoleiðis, eða hann sparar þau. Hann gerir ekki nema tvennt við launin sín. Þegar hann sparar gerir hann það annaðhvort með því að borga niður skuldir eða með því að leggja inn í banka.

Það sem gerðist í haust er að Íslendingurinn breytti hegðun sinni gersamlega og hætti að eyða. Það þýðir að hann fór að spara. Af því að hjá lunganum úr þjóðinni hafa tekjurnar haldið áfram að koma inn. Þó að fjórðungur þjóðarinnar hafi því miður lent í miklum áföllum með atvinnumissi, fá skertar tekjur o.s.frv. og auknum byrðum af gengistryggðum lánum, þá er lunginn af þjóðinni með tekjurnar áfram og þær fara inn á sparisjóðsinnstæður. Enda kom það fram í fundargerð peningastefnunefndar, þeirri fyrstu sem birtist, að innlánsaukningin frá því í ágúst til þess tíma, sem var í mars, væri 250 milljarðar. Gífurlega háar tölur. Reyndar er hluti af því millifærsla frá peningamarkaðssjóðum, mig minnir að það hafi verið 113 en eftir standa um 100–120 milljarðar í innlánsreikningum sem er um 400 þús. kr. á hvert mannsbarn í landinu, litlu börnin meðtalin. Þannig að það er gífurleg innlánsaukning í landinu.

Hvar skyldi það fé nú vera? Það er lokað inni í bönkunum. Það er lokað inni í bönkunum vegna allt of hárra stýrivaxta, það fer ekki út, vegna þess að bankarnir hafa ekki efnahag og vegna þess að bankarnir treysta ekki einu einasta fyrirtæki í landinu til að taka við lánum. Þetta er kannski of mikil alhæfing en traustið er mjög lítið í útlánum. Þetta er eitthvað sem við þurfum að vinda bráðan bug að, bráðan bug að því að leysa. Bæði að koma að efnahag bankanna, það er sko vandamál númer eitt, tvö og þrjú, og að koma stýrivöxtunum niður því þeir þýða gífurlega raunvexti í dag.

Þessu ættum við að standa í að leysa en því miður er þingið að gera eitthvað allt annað. Það er alltaf að gera eitthvað allt annað. Fyrst var það að koma ákveðnum manni út úr Seðlabankanum, það var mikið mál. Svo þurfi að koma á stjórnlagaþingi, það var mikið mál. Og svo, ég ætla nú ekki að vera neikvæður, á að ganga í Evrópusambandið sem leysir akkúrat ekkert af þessum vandamálum. En menn eru alltaf að gera eitthvað. Þetta er einhver verkfælni. Þetta er eins og menn séu verkfælnir og grípa alltaf eitthvað og gera eitthvað annað en það sem virkilega þarf að gera. (Gripið fram í.) Það þarf virkilega að koma bönkunum í gang þannig að þeir geti farið að lána út t.d. hér. Ég mundi leggja til að hv. nefnd fari nú vel í gegnum þetta og sjái til hvort hún gæti ekki breytt frumvarpinu þannig að einstaklingurinn geti komið að þessu líka eða sameignarfélög einstaklinga. Þannig að þessi mikli sparnaður sem hefur myndast fari nú að virka. Og einnig að lífeyrissjóðirnar geti komið að þessu batteríi og hugsanlega að batteríið yrði víkkað út þannig að það séu ekki bara þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki. Þá erum við eiginlega komin í sömu stöðu og lífeyrissjóðirnir ætluðu sér að gera fyrir áramót, og kannski þarf ríkið ekkert að koma að því.

En til þess að það sé hægt þarf að auka traust á hlutaféð og hlutafélög. Á þskj. 5, sem dreift var frá mér í gær, og hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur, er einmitt tekið á þeim vandamálum sem menn hafa séð, sem er gagnkvæmt eignarhald og krosseignarhald, lán til hluthafa og allt það sem hefur verið að koma upp að undanförnu — ég tel að það eigi mjög stóran þátt í hruninu og þá sérstaklega hve hrunið varð hratt. Það var vegna þess að fyrirtækin voru öll meira og minna háð hvert öðru. Ég tel að það frumvarp sem ég hef lagt fram, og ég vona að hv. viðskiptanefnd taki það til gaumgæfilegrar athugunar eftir að það hefur verið rætt, leysi alla þá galla sem menn hafa fundið á hlutafélagaforminu, í rauninni hefur hlutafélagaformið verið eyðilagt og traustið á því.

Ég hugsa að ef menn tækju þessu jákvætt og reyndu að finna veilurnar í kerfinu, sem eru krosseignarhald og annað slíkt, og kæmu í veg fyrir það, gæti byggst upp aftur traust á hlutafélagaforminu þannig að þessir miklu peningar sem eru lokaðir inni í bönkunum — þeir eru lokaðir inni af því að stýrivextir eru háir og líka vegna þess að það vantar traust. Ef það tekst að skapa aftur traust á hlutafélagaforminu og sníða af því þá vankanta sem virkilega ollu hruninu hygg ég að það sé ekki vandamál með fjármögnunina í þessu dæmi því að þjóðin á miklar innstæður í bönkunum og lífeyrissjóðirnir eiga miklar innstæður sem þeir geta ráðstafað til þess að kaupa hlutafé. Ég hugsa að þá sé búið að leysa það sem menn hafa verið að tala um og með réttu, þ.e. að við séum að hverfa aftur til þess tíma sem enginn okkar vill þekkja, þegar flokkarnir tilnefndu bankaráðsmenn í bankana og lánveitingar voru meira og minna pólitískar. Það varð t.d. að þekkja einhvern til þess að fá lán. Það er tími sem ég vil ekki sjá.