137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[15:52]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir athyglisverða ræðu, það gerist nefnilega undarlega oft að ég og hv. þm. Pétur Blöndal erum merkilega sammála og það erum við held ég í þessu tilviki. Ég tek undir mjög margt af því sem hann sagði og sérstaklega það að við eigum bara að ræða þetta út frá þeirri bitru staðreynd að skaðinn er skeður, áfallið er orðið, og nú er spurningin um að greiða úr þeim hlutum.

Einnig er athyglisvert að hv. þingmaður kom hér að hlut sem er hárréttur, að innlán hafa aukist verulega. Þar sýna sig hinir háu vextir, sem eru allt of háir reyndar og til vandræða í bankakerfinu, en það er líka jákvætt í þeim skilningi að það er þó laust fé til ráðstöfunar ef það fer að vinna úti í samfélaginu. Reyndar hef ég grun um að hluti innlánsaukningarinnar sé einfaldlega vegna þess að lífeyrissjóðir hafi talið það vænlegan ávöxtunarkost að leggja fé inn á bankabók, tímabundið, fé sem væri auðvitað mjög vel þegið í endurreisn í atvinnulífinu.

Þá kemur að spurningunni um fyrirkomulag í þessum efnum. Ég hafði skilið og hef skilið hugmyndir um endurreisnarsjóð, sem t.d. lífeyrissjóðir legðu til fjármagn, þannig að þar væri hugsunin að koma með hið nýja fé sem tryggði endurreistum fyrirtækjum eða nýstofnuðum fyrirtækjum fjármagn til að leggja af stað í nýja vegferð. Það hvort slíkir aðilar, lífeyrissjóðir eða almenningur, koma með sem meðeigendur á móti ríkinu eða tækju alveg að sér það verkefni að eiga eignaumsýslufélag sem aðeins á að starfa í mjög skamman tíma og markmiðið að eiga fyrirtækin eins stutt og hægt er, er annað mál. Aðalatriðið er að það séu einhverjir til þess að taka við þeim og þar þurfum við samstarf við lífeyrissjóði og aðra slíka aðila sem geta lagt sitt af mörkum til uppbyggingarinnar og endurreisnarinnar.

Ég held að hér sé enginn stórkostlegur ágreiningur í raun og veru ef menn setjast yfir málið og ég fagna vilja hv. þingmanna og ekki síst þess sem síðast talaði til að gera það í viðkomandi nefnd. Ekki mun standa á mér að skoða allar breytingar á frumvarpinu ef þær verða til góðs og auka um það samstöðu. Það er síður en svo að mér sé einhver höfundarréttur á því heilagur (Forseti hringir.) enda í rauninni ekki samið af mér heldur sérfræðingum og ég er eingöngu sendisveinninn fyrir það hingað inn í Alþingi.