137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[15:58]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Frú forseti. Þar sem þetta er í fyrsta skipti sem ég kem í ræðustól Alþingis langar mig að segja þetta: Það er í auðmýkt sem ég nálgast það verkefni að vera alþingismaður, enda eru það forréttindi að starfa hér við löggjafarsamkunduna. Ég vona að mér og okkur öllum takist að vinna af heilindum í þágu lands og þjóðar, sérstaklega í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi eru í samfélaginu.

Mig langar að hnykkja á nokkrum atriðum sem tengjast frumvarpinu. Í fyrsta lagi held ég að mikilvægt sé fyrir okkur öll að hafa í huga að við erum að horfa á nauðsynleg opinber afskipti en alls ekki pólitísk afskipti. Ég hlakka til að skoða það sérstaklega í meðförum nefndarinnar, enda er um að ræða nýja efnahags- og skattanefnd og að stórum hluta til nýtt fólk sem þar er sem tekur afstöðu til þessa máls.

Hitt sem mig langar að velta upp er gagnsæi í vinnubrögðum eignaumsýslufélagsins þegar þar að kemur. Ég held að mikilvægt sé að við skoðum það sérstaklega í meðförum nefndarinnar að við reynum að tryggja að þetta félag starfi fyrir eins opnum tjöldum og mögulegt er, hvort sem ráðist er í endurskipulagningu rekstrar, sameiningu fyrirtækja eða sölu á óhagkvæmum rekstrareiningum. Ég held að mikilvægt sé að við reynum að byggja upp traust á því eignaumsýslufélagi þegar þar að kemur.

Ég held að við ættum líka að skoða í ljósi eignarhalds á eignaumsýslufélaginu að það sé jafnvel betra að ríkið eigi þessa hluti algjörlega vegna þess að ég held að það auki líkurnar á því að við náum að hafa þetta eignarhald sem allra styst. Við bíðum eftir því að lífeyrissjóðir eða aðrir — eins og þingmenn hafa komið hér inn á — geti komið að þessu verkefni þá um leið, því að ég held að við horfum ekki til þess til langrar framtíðar að ríkið eigi einhvern hlut í þessum fyrirtækjum eða eignaumsýslufélaginu.

Í þriðja lagi held ég að við ættum að skoða sérstaklega í meðförum nefndarinnar að Alþingi fái með einhverjum hætti að koma að því ferli sem hefst þegar kemur að sölu á eignarhlutunum. Ég held að mikilvægt sé að við, löggjafarsamkundan, fái að skoða það með einhverjum hætti hvernig það gerist, og við fáum þá að móta reglur um það hvernig hlutir ríkisins verði seldir og þannig fáum við að sinna eftirlitshlutverki okkar.

Að endingu vil ég segja: Ég hlakka til að fá þetta mál til efnahags- og skattanefndar og ég er viss um að nefndin mun skoða með opnum huga allar þær hugmyndir sem hér hafa komið fram.