137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[16:01]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Ég hef á margan hátt skilning á því lagafrumvarpi sem hér hefur verið lagt fram. Allir eru sammála um að mjög óvenjulegar aðstæður ríki í íslensku samfélagi eins og mikið hefur verið rætt hér í dag. Fyrirtæki sem eru á margan hátt ákaflega mikilvæg eru að fara á höfuðið, í rauninni ekki bara fyrirtæki heldur líka heimili í landinu og síðan líka önnur fyrirtæki en þau sem við skilgreinum endilega mikilvæg. Sú skilgreining er auðvitað mjög óljós.

Þetta frumvarp vekur hins vegar miklu fleiri spurningar en er svarað í því. Það er ákaflega óljóst og þá vaknar auðvitað spurningin í upphafi: Hvaða kröfur eigum við að gera til frumvarpa? Nú eru óvenjulegir tímar og við höfum á margan hátt sett óvenjuleg lög, en við megum samt ekki víkja frá þeim grunnkröfum sem við hljótum að gera til frumvarpa. Þau verða að vera skýr og einhvern veginn þannig úr garði gerð að ekki sé hægt að misnota þau. Þau verða líka að vera skynsamleg og skiljanleg. Mér sýnist að þetta frumvarp falli ekki að öllum þessum kríteríum. Hvað er t.d. óskýrt í þessu? Það lýtur að skilgreiningu á þjóðhagslega mikilvægum fyrirtækjum eins og hér hefur verið rætt. Það er afskaplega erfitt að samþykkja einhvers konar opna heimild til að yfirtaka fyrirtæki í opinbert eignaumsýslufélag á grundvelli þess að menn segi að það verði sett einhver reglugerð undir umsjón fjármálaráðherra um hvað teljist þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki. Við hljótum að þurfa að skilgreina það betur við þinglega meðferð.

Fjölmargar aðrar spurningar vakna, t.d. mætti halda því fram að hin þjóðhagslega mikilvægu fyrirtæki í landinu séu þegar í ríkisrekstri, t.d. orkufyrirtækin, spítalarnir, vínbúðirnar meira að segja — einhverjir mundu kannski ekki endilega telja þær þjóðhagslega mikilvægar en þær eru þó þegar í opinberum rekstri. Við höfum útvarp í opinberum rekstri sem er þjóðhagslega mikilvægt út frá ákveðnum öryggisatriðum. Einhverjir mundu segja að það væri algjörlega ónauðsynlegt að gera svona opinbert eignaumsýslufélag vegna þess að fyrirtækin sem eru þjóðhagslega mikilvæg eru þegar í opinberri eigu.

Það er minnst á fæðuöryggi í þessu. Fæðuöryggi er í sterku samhengi við landbúnaðinn. Eru öll kúabú, sem mörg hver horfa fram á mjög erfiða stöðu um þessar mundir, þjóðhagslega mikilvæg? Á þá að yfirtaka þau öll þannig að þetta opinbera eignaumsýslufélag verði komið með velflest kúabú í landinu í sína umsýslu? (Gripið fram í: Mjólkin er holl.) Já, á grunni afstöðu sinnar til mjólkur, hvort hún er holl eða óholl, geta menn þá væntanlega tekið afstöðu til þess hvort kúabú séu þjóðhagslega mikilvæg eða ekki. Það er minnst á fæðuöryggi og því vakna þessar spurningar.

Hvernig verða fyrirtækin seld? Þetta er nokkuð sem menn verða að skýra betur og það er ekki boðlegt að í frumvarpinu sé sagt að þau verði seld gagnsætt, að gagnsæi eigi að ráða ferðinni í því hvernig þau verða seld og síðan verði það skýrt einhvern veginn aðeins betur, þá í reglugerð á vegum ráðuneytisins eða eitthvað slíkt. Orðið gagnsæi hefur ekki beinlínis lagalegan skýringarmátt eða grundvöll, sérstaklega ættum við að hafa lært af því í ljósi atburðarásarinnar á undanförnum mánuðum að gagnsæi er ansi óljóst hugtak. Það má halda því fram að þetta sé tískuorð í bransanum, pólitíkinni, það er talað mikið um gagnsæi en hins vegar virðist gagnsæinu oft frekar ábótavant, t.d. vitum við ekkert núna um stöðu bankanna eða stöðu þjóðarbúsins þó að menn segi að þar eigi gagnsæi að ráða för. Að ætla sér að selja þessi fyrirtæki aftur með gagnsæjum vinnubrögðum segir okkur ekki neitt. Kannski verður gagnsæið skilgreint þannig að þeir sem selja fyrirtækin aftur telji mikilvægt að segja mjög skýrt frá því hverjum þau voru seld, það er svona minnsta tegund af gagnsæi sem við gætum ímyndað okkar. Á hvaða hátt á ferlið að vera gagnsætt, af hverju er ekki skilgreint betur í frumvarpinu með hvaða hætti fyrirtækin verði þá seld aftur? Hver er ferillinn, hverjir eiga að koma að því? Hvers ráðgjafar eigum við að leita?

Síðan er ákaflega óskýrt hverjir eigi að sitja í stjórn þessa eignaumsýslufélags. Það er gengið út frá því að viðkomandi eigi að hafa menntun, gott og vel, og þeir eiga ekki að hafa orðið sekir um einhvers konar fjármunalegt misferli — þó það nú væri — á undanförnum fimm árum eða eitthvað svoleiðis, mega ekki hafa orðið gjaldþrota. Þetta eru ákaflega miklar lágmarkskröfur og það er ekkert sem kemur í veg fyrir að þetta verði einhvers konar einkavinafélag eins og við höfum séð (Gripið fram í.) í mjög mörgum öðrum löndum, og ásakanir hafa verið uppi um að það hafi gerst á Íslandi. Hæstv. fjármálaráðherra segir sporin hræða — látum þá sporin hræða, endurtökum ekki mistök, höfum þetta skýrt.

Hér er verið að búa til einhvers konar opinbert eignaumsýslufélag sem býður upp á spillingu af þessu tagi. Af hverju ættum við að bjóða upp á hana, af hverju, og sérstaklega ef sporin hræða á einhvern hátt? Ég skil ekki alveg þessa umræðu. Ef sporin hræða að þessu leyti til, er þá ekki enn þá meiri ástæða til að gera þetta vel og hafa ekki einhvers konar opna heimild fyrir hæstv. fjármálaráðherra sem er pólitískur? Hann hefur pólitískt umboð og engar hömlur eru á hann settar, hvorki í reglugerðarvaldinu sem hann hefur til að skilgreina söluferlið og heldur ekki þegar ákveða þarf hverjir sitji í stjórninni. Þó að ég hafi ágætisálit á hæstv. fjármálaráðherra og telji hann ekki spilltan verðum við að gera ráð fyrir því að einhver annar verri maður tæki við stöðu hans. Lögin sem við setjum í landinu mega ekki byggja á því hvaða álit við höfum mögulega á viðkomandi ráðherrum. Þetta er allt saman afskaplega óljóst og lykilatriðið er að þetta fellur á þessum mælikvörðum, þetta býður upp á spillingu og við eigum ekki að setja lög sem gera það.

Svo er spurningin hvort þetta sé skynsamlegt. Í frumvarpinu er farið nokkrum orðum um að þekkingin á því hvernig á að fara með eignaumsýslu af þessu tagi er mjög mikil í bönkunum. Það vitum við. Það má halda fram með góðum rökum að þessi umsýsla á Íslandi eigi þess vegna að fara fram í bönkunum, hún eigi að vera þar vegna þess að þar er þekkingin á viðskiptum viðkomandi fyrirtækja, þar er þekkingin á þessum fyrirtækjum til staðar. Þar er líka til staðar hæfileg fjarlægð frá pólitíkinni sem við hljótum að vilja í þessu máli. Þetta er ekki nógu vel rökstutt og þess vegna vaknar spurningin: Af hverju ætti fimm manna stjórn sem er skipuð einhvern veginn á vegum hæstv. fjármálaráðherra að búa yfir meiri þekkingu á hagsmunum þessara fyrirtækja en er til staðar í bönkunum núna? Er skynsamlegt að gera þetta svona?

Síðan er afskaplega óljóst hvaða fjármunir eiga að fylgja. Er þetta endurreisnarsjóður, er þetta einhvers konar endurreisnarstarf? Á að endurreisa fyrirtækin í gegnum þetta og með hvaða peningum þá, með hvaða hætti á það að fara fram? Er þetta þá þannig að við látum hæstv. fjármálaráðherra fá algjörlega óútfylltan tékka sem hann gæti jafnvel notað til að fara í algjörlega óljóst söluferli á þjóðhagslega mikilvægum fyrirtækjum á Íslandi og umsýsluferli með vinum sínum? Ég bið hæstv. fjármálaráðherra að taka þetta ekki persónulega. Ég segi bara að ef lögin munu líta svona út bjóða þau upp á þetta. (Fjmrh.: Ég þekki nú ekki mikið af … Kannski einhverjir aðrir …)

Nú ætla ég að koma að því sem ég tel ákaflega mikilvægt að við ræðum í tilefni þessarar lagasetningar. Hæstv. fjármálaráðherra virðist ekki hafa fullkominn skilning á því að lög verða auðvitað að vera hafin yfir persónu hans og hafin yfir það hvað við teljum mannkosti hæstv. fjármálaráðherra á hverjum tíma. Honum verður mjög tíðrætt um það á einhvern hátt — og það er ákveðið leiðarþema í tali hans — að honum leyfist að setja þessi lög vegna þess að hann sé ekki framsóknarmaður. Mér finnst hann svara réttmætum aðfinnslum við þetta frumvarp á þann hátt að hann sé ekki spilltur, en hins vegar séu framsóknarmenn það á einhvern hátt. Hann hefur kannski ekki sagt þetta beint en það liggur í orðunum.

Þetta finnst mér verulega umhugsunarvert. Ég get tekið undir að mér virðast líka oft kröfur á framsóknarmenn um að þeir axli siðferðislega ábyrgð — og mér finnst stundum umræðan vera þannig að framsóknarmenn eigi beinlínis að axla syndir heimsins — fela í sér ákveðin viðmið, kannski ættu allir flokkar að ímynda sér að þeir væru Framsóknarflokkurinn og reyna að axla sömu byrðar og mæta sömu kröfum.

Ég er mjög stoltur af verkum Framsóknarflokksins í gegnum tíðina. Þau eru ekki oft nefnd í umræðunni. Framsóknarflokkurinn stóð að því að stofna umhverfisráðuneytið, stóð að því að gjörbylta upplýsingalögum á Íslandi á sínum tíma sem jók mjög mikið umrætt gagnsæi, svo dæmi sé tekið, og stóð dyggan vörð um Íbúðalánasjóð. Hann hefur stuðlað að auknum mannréttindum ýmissa minnihlutahópa á Íslandi í gegnum mjög framsækna löggjöf á því sviði. Hann hefur stundað fagleg vinnubrögð, sama hvað hver segir, og verið stoltur af því.

Ég var líka mjög stoltur af því þegar Framsóknarflokkurinn braut blað í sögu þjóðarinnar og studdi minnihlutastjórn, sama hvað mönnum finnst síðan um árangurinn af því verki. Það var að frumkvæði Framsóknarflokksins. Framsóknarflokkurinn hefur talað fyrir stjórnsýsluumbótum, m.a. stjórnlagaþingi. Þó að Framsóknarflokkurinn þurfi líka að horfast í augu við það að hann hafi staðið að ýmsu í íslensku samfélagi, eins og einkavæðingu bankanna sem menn setja núna ýmis spurningarmerki við, ætlar Framsóknarflokkurinn auðvitað ekki að sitja undir því að hann sé á einhvern hátt ábyrgur fyrir öllu sem hefur gerst. Framsóknarflokkurinn kom t.d. ekki nálægt þjóðnýtingu Glitnis í október, sem má halda fram að séu einhver afdrifaríkustu mistök Íslandssögunnar. Framsóknarflokkurinn kom ekki nálægt skuldbindingum út af Icesave-reikningunum á sínum tíma.

Það verða mjög margir að horfast í augu við sjálfa sig og axla ábyrgð á því sem hefur gerst. Þess vegna er málflutningur af þessu tagi alls ekki boðlegur en kannski felur hann samt í sér smávísbendingu um það hvernig við eigum að taka á svona hlutum.

Fyrst hæstv. fjármálaráðherra verður svona tíðrætt um Framsóknarflokkinn í þessu bið ég hann að ímynda sér — (Gripið fram í: Ímynda sér? …) já, ég bið hann að ímynda sér að ef þetta frumvarp væri lagt fram af framsóknarráðherra og ef hann væri sjálfur í stjórnarandstöðu hérna og ætti að standa að því að fela framsóknarráðherra — og ég tel mig hafa fundið vísbendingar um að honum finnist ekki mikið til framsóknarráðherra koma — mundi hann ekki flytja hérna dálítið magnaðar ræður og gasalegar ef það stæði upp á hann að samþykkja að framsóknarráðherra fengi að skipa fimm manna stjórn, algjörlega óskilgreinda, um eignaumsýslu á þjóðhagslega mikilvægum fyrirtækjum og að framsóknarráðherra fengi síðan algjört reglugerðarvald um það, sem hann hefði náttúrlega sem ráðherra, hvernig ætti að skilgreina söluferli og hvaða krítería lægi því til grundvallar? Segjum að honum væri algjörlega falið að skilgreina hvað væri þjóðhagslega mikilvægt og það væri algjörlega óskilgreint hversu lengi þessi fyrirtæki ættu að vera rekin af ríkinu, hinu opinbera, hinni fimm manna stjórn — mundi hæstv. fjármálaráðherra ekki flytja ansi magnaðar og gasalegar ræður gegn slíku frumvarpi ef það væri flutt af framsóknarráðherra?

Þá er náttúrlega lokaspurningin: Eigum við að samþykkja þetta frumvarp vegna þess að Steingrímur er ekki framsóknarráðherra eða vegna þess að Steingrímur stendur að því, vegna þess að hæstv. fjármálaráðherra er þeim kostum búinn að hann mun aldrei gera neitt (Forseti hringir.) sem er spillt? Við getum auðvitað ekki samið frumvarp sem er reist (Forseti hringir.) á einhverjum svona skoðunum á mannkostum einstakra ráðherra.