137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[16:19]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil nú byrja á að upplýsa það og taka það fram svo það misskiljist ekki að ég ber mikla virðingu fyrir fjölmörgum góðum framsóknarmönnum, þar á meðal t.d. föður þess sem hér var að flytja sitt mál áðan. Framsóknarmenn hafa lagt margt gott til málanna gegnum tíðina. Þeir bera auðvitað líka sína pólitísku ábyrgð á ýmsu sem sætt hefur gagnrýni og þannig er það í pólitíkinni. Aðalatriðið er að menn séu dæmdir af verkum sínum og með sanngjörnum og málefnalegum hætti. Menn geta ekki kveinkað sér undan því að axla pólitíska ábyrgð á því sem þeir gera og þeir taka að sér sem kjörnir fulltrúar eða ráðherrar og handhafar framkvæmdarvalds um tíma.

Ef ég man rétt nefndi ég Framsóknarflokkinn aðeins einu sinni í öllum umræðunum fram að þessu og það var í andsvari við hv. þm. Birki Jón Jónsson. En ég hafði að vísu kallað stríðnislega fram í fyrir honum á meðan hann flutti mál sitt.

Ég skal bara passa mig betur á þessu eftirleiðis og vera ekki að nefna Framsóknarflokkinn mikið ef það leiðir til þess að það er lesið svona gríðarlega í það eins og mér finnst gert hér í þessari ræðu. Þarna var margt lesið inn í þetta sakleysislega frammíkall mitt eða það litla sem ég sagði sem ég kannast nú bara alls ekkert við að standa fyrir um hlut Framsóknarflokksins. Hins vegar er aðkoma hans að einkavæðingu bankanna og ýmsu sem þar gerðist á spjöldum sögunnar, það er á sínum stað.

Varðandi hvernig best er að skipa í stjórnir af þessu tagi eru auðvitað ýmsar leiðir farnar í þeim efnum. Ég hallast að því í svona tilvikum þar sem um sérhæft viðfangsefni er að ræða og þar sem ætlunin er að byggja upp fagþekkingu og sérþekkingu á viðkomandi sviði sé fagleg tilnefning með vel skilgreindum faglegum hæfniskröfum kannski vænlegasta leiðin.

Það er að sjálfsögðu líka mögulegt að Alþingi kjósi slíka stjórn og það var oft gert hér áður. En þróunin undanfarin ár hefur öll verið í átt frá því, m.a. á þeim langa tíma sem flokkur hv. þingmanns sat í ríkisstjórninni. Þá voru aflagðar hér fjölmargar þingkjörnar stjórnir og tilnefningarvaldið fært alfarið í hendur ráðherra. (Forseti hringir.) Hægt er að leita (Forseti hringir.) eftir tilnefningu utan úr bæ o.s.frv. Það eru bæði kostir og gallar við allar þessar aðferðir sem sjálfsagt er að skoða. Eitt er þó til staðar, (Forseti hringir.) ef ráðherrann tilnefnir ber hann þar með óskoraða pólitíska (Forseti hringir.) ábyrgð á því sem hann hefur gert.