137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[16:24]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu verða lög alltaf að standa í eigin ágæti. Ég held að fyrsta spurningin sem alltaf kemur upp sé: Eru menn sáttir við fyrirkomulagið og inntak laganna? Hvert er verkefnið sem á að leysa? Hvað er á bak við? Er sá lagaumbúnaður og sú lagaumgjörð sem þar er verið að ganga frá á vegum Alþingis sú sem menn telja heppilegasta og réttasta? Það er fyrsta spurningin og henni eiga menn að svara.

Og síðan er það spurningin um það hvort menn hagi lagasetningunni eftir því hvort þeir telja að þá sé í ráðuneyti maður sem þeir treysta eða treysta ekki. Það held ég að sé erfið nálgun. Að sjálfsögðu er ekki hægt að halda því fram að það geti ekki haft áhrif á afstöðu manna þegar þeir veita endanlega samþykki sitt eða leggjast gegn einhverjum lagabreytingum að þeir séu ekki sáttir við í hvaða höndum það lendir.

Það er þá væntanlega tvennt sem þar kemur til. Það er annars vegar að menn kunni að vantreysta viðkomandi einstaklingi og telja að hann sé ekki vanda sínum vaxinn eða að hann kunni að misnota það vald sem honum er fært með lögunum sem handhafi framkvæmdarvaldsins í einhvern tíma.

Hin ástæðan gæti verið sú, og hún er miklu efnislegri, að það sé yfirlýst stefna. Það sé pólitík á bak við málið sem gangi í einhverja átt sem menn séu ósáttir við. Menn geta velt hvoru tveggja fyrir sér í þessum efnum. Það sem ég hef reynt að fullvissa menn um að af minni hálfu og af hálfu þessarar ríkisstjórnar er enginn ásetningur á bak við í þessu máli, sem margir virðast þó reyna að lesa í hér, að ríkið hafi áhuga á því að taka til sín fyrirtæki ef hjá því verður komist og þaðan af síður að eiga þau um einhvern langan tíma í þessu félagi.

Málið er alveg skýrt hvað það varðar. Megintilgangur félagsins er gagnstæður, að koma þessum fyrirtækjum strax út í lífið aftur í hendur annarra eigenda. Það er skýrt. Löggjöfin á aðeins að gilda í fimm ár og þá á verkefninu að vera lokið og búið að slíta félaginu. Er hægt að hafa það einhvern veginn skýrara? Ég kannast ekki (Forseti hringir.) við það. Menn hljóta þá að reyna að lesa það út úr frumvarpinu að ætlunin sé að gera þetta eitthvað öðruvísi en frumvarpið gerir ráð fyrir og (Forseti hringir.) megintilgangur þess er.