137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[16:26]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vek athygli á því að hæstv. fjármálaráðherra svaraði ekki spurningunni. Kannski vildi hann það ekki. Honum líkaði ágætlega við föður minn eins og komið hefur fram og mér líkar ágætlega við hæstv. fjármálaráðherra. Við klifum einu sinni saman Esjuna og fór vel á með okkur og það var ansi skemmtileg kvöldstund.

Það sem ég er að reyna að vekja athygli á hérna er að þingheimi er nú uppálagt að samþykkja þetta frumvarp með þeim orðum að það sé ekki ætlun hæstv. ráðherra eða hæstv. ríkisstjórnar að gera nokkuð slæmt. Það sé ekki ætlunin að gera neitt annað en kannski eitthvað smásakleysislegt, hugsanlega að taka yfir fyrirtæki í eignaumsýslufélag. Það er orðað í þessa átt.

En það er bara ekki nógu gott. Það er ekki hægt að samþykkja lagasetningu á grundvelli svona fyrirheita. Ég get vel séð fyrir mér atburðarás, kannski gerist eitthvað eða hæstv. fjármálaráðherra fær einhverjar aðrar hugmyndir á morgun og fer að ganga í einkennisbúningi og fær þær hugmyndir að hann eigi að stjórna þjóðhagslega mikilvægum fyrirtækjum á Íslandi. Annað eins hefur gerst í öðrum löndum. Þetta er öfgafullt dæmi, sett fram til að útskýra af hverju við getum ekki samþykkt svona frumvarp. Það færir of mikið vald í hendur á einstökum hæstv. ráðherrum. Ég get vel séð fyrir mér að t.d. yrðu hér fyrirtæki í langvarandi opinberum rekstri (Forseti hringir.) og væri algjörlega óljóst hvernig þau yrðu seld eða hvort þau yrðu það nokkurn tímann. Það hefur gerst áður á Íslandi. (Forseti hringir.) En það er ekkert í lagasetningunni sem kemur í veg fyrir að það verði gert aftur.