137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[16:41]
Horfa

Þór Saari (Bhr):

Frú forseti. Ágætu þingmenn — þeir sem eftir eru í salnum. Hér er ég að taka þátt í mínum fyrsta hefðbundna starfsdegi á Alþingi Íslendinga og það er depurð í hjarta mínu að fylgjast með því sem fram hefur farið í dag og það er dapurlegt yfir þennan sal að horfa. Hér eru eiginlega engir þingmenn inni nema örfáir nýliðar sem annaðhvort vita ekki að þeir mega fara heim eða þeir eru svona einstaklega áhugasamir í nýju vinnunni sinni.

Ég hef ekki lagt mig fram um að horfa mikið á þingstörfin í sjónvarpi vegna þess að mér hefur leiðst það en nú get ég ekki annað en verið með af því að ég fæ borgað fyrir það, en þetta er kannski ekki það sem ég bjóst við. Ég bjóst ekkert endilega við neinu góðu. Ég stóð hér fyrir utan í allan vetur og mótmælti starfsháttum þingsins og hneykslaðist á þeim. Sú hneykslan er enn til staðar.

Hér er verið að ræða mjög stórt og mjög mikilvægt mál. Hér er verið að ræða eignaumsýslufélag ríkisins sem þarf að taka yfir fjöldamörg íslensk fyrirtæki sem eru í rúst vegna þess að efnahagslífið er í rúst og menn fara bara út í vorið á meðan. Menn hafa talað eins og þeir kæmu úr öðru sólkerfi. Hv. þm. Pétur Blöndal talaði eins og hann kæmi frá sólkerfinu „Friedmaníu“ sem hér hefur rústað öllu. Framsóknarmenn eru greinilega í mikilli fýlu út í ríkisstjórnina. Það er vont að vera ekki við völd. Það er jafnvel vont að vera ekki hækja við minnihlutastjórn. Sá málefnalegasti hefur kannski verið kollegi minn, hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson, sem tæpir þó á staðreyndum varðandi málið. Hér hef ég heyrt orðhengilshátt og útúrsnúninga og menn hafa verið að spauga eitthvað að mér heyrist, sem er dapurlegt.

Vandinn sem blasir við fjármálaráðherra, ríkisstjórninni og þinginu minnir á þann vanda hvorki meira né minna sem blasti við fjölmörgum löndum í Evrópu eftir síðari heimsstyrjöldina. Við skulum gera okkur grein fyrir því að hér er efnahagslífið í rúst, það er ein rjúkandi rúst. Halda þarf vel utan um þetta eignaumsýslufélag og það þarf að vanda til verka. Sporin hræða þegar stjórnmálamenn koma að slíkum verkum. Sem betur fer er það þó Steingrímur J. Sigfússon sem er fjármálaráðherra í dag en ekki einhver framsóknarmaðurinn eða sjálfstæðismaðurinn því að eins menn hafa sagt áður: Sporin hræða.

Þetta er ekki glæsilegt ástand. Endurreisn og endurskipulagning allra þeirra fyrirtækja sem fram undan er sýnist mér vera nánast óvinnandi verk. Grundvallaratriðin í þessu máli eru náttúrlega þau að hér þurfa allar tiltækar upplýsingar að vera uppi á borðinu, það þarf að vera upplýst um eignarhald og eignatengsl og vensl eigenda og stjórnenda, vensl stjórnenda og eigenda og stjórnmálamanna til dæmis. Allar hugsanlegar upplýsingar sem skipt geta máli þurfa að vera uppi á borðinu.

Ég tæpti á þessu fyrr í dag í fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra um upplýsingar um eignarhald á svokölluðum jöklabréfum. Þær fást ekki. Hér þarf að gera bragarbót á og til þess er Borgarahreyfingin á þingi. Það er algerlega óviðunandi ástand að áfram skuli eiga að halda með gamla, góða friedmaníuhagkerfið og svo leggja menn til að það sé sérfræðiþekking í bönkunum til að endurskipuleggja þessi fyrirtæki. Við erum hér í dag vegna þeirrar sérfræðiþekkingar sem var til í bönkunum. Það er vegna þeirrar sérfræðiþekkingar sem íslenska hagkerfið hrundi, ég bara bið ykkur að minnast þess. Hér þarf eitthvað allt annað koma til, hér þarf að hugsa hlutina upp á nýtt, hér þarf að gera hlutina öðruvísi. Vissulega getur verið þörf á eignaumsýslufélagi, og ég held að svo sé, en það þarf að leita annarra leiða til að rétta við þessi fyrirtæki. Hér mætti t.d. huga að nýjum hugmyndum eins og einfaldlega að afhenda þau starfsfólkinu til reksturs. Það er ekki endilega starfsfólkið sem setti þau á hausinn, það eru eigendurnir og stjórnendurnir, þekkingin er hjá starfsfólkinu. Hví ekki að leyfa starfsfólkinu að taka yfir reksturinn, leigja því reksturinn í svona fimm ár til að sjá hvernig það gengur? Það gæti leyst hluta af vandanum.

Það þarf að skoða ýmislegt í þessu máli en það sem er kannski grundvallarhugmyndin og grundvallaratriðið á bak við er að það þarf að vera gegnsæi. Menn hafa viljað draga aðila vinnumarkaðarins inn í þetta eignaumsýslufélag. Hverjir eru aðilar vinnumarkaðarins? Það er launþegahreyfingin, sem hefur átt sæti í stjórnum þeirra lífeyrissjóða sem hafa tapað núna nánast helmingi af eigum sínum. Það eru Samtök atvinnulífsins sem börðust fyrir því kerfi sem nú er hrunið. Það er Viðskiptaráð sem er arkitektinn að því kerfi sem nú er hrunið. Vilja menn fá þetta fólk inn í þetta eignaumsýslufélag, er það góð hugmynd? Vilja menn fá lífeyrissjóðina inn í þetta félag? Lífeyrissjóðirnir eiga að ávaxta m.a. lífeyrissparnaðinn minn sem þeim hefur ekki tekist sérlega vel til með. Ég held að það sé einfaldlega komið að leiðarlokum hvað varðar þá uppsöfnunarsjóði sem heita lífeyrissjóðir á Íslandi og það verði að skipta um það kerfi líka. Hér er einfaldlega allt í einni rjúkandi rúst og það verður að taka á því af einhverju viti.

Hlutverk fjármálaráðherra er ekki öfundsvert og hlutverk ríkisstjórnarinnar í þessu máli er ekki öfundsvert. Í efnahags- og viðskiptanefnd eru held ég fjórir hagfræðingar, eins og einhver talaði um. Það er mikil sérfræðiþekking á þessu sviði í þinginu vegna þess að hér er núna ný tegund af hagfræðingum sem koma ekki úr sólkerfinu „Friedmaníu“ heldur eru raunveruleikatengdir. Það er því mikið verk fyrir höndum og ég óska fjármálaráðherra og ríkisstjórninni velfarnaðar með þetta eignaumsýslufélag ef það fer vel af stað. Það verður erfitt að byrja en hvernig borðar maður fíl? eins og þeir segja í Afríku. Jú, það er bara að byrja og svo tekur maður einn bita í einu.