137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[16:53]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég vil í lok þessarar umræðu þakka fyrir hana. Hér hafa orðið lífleg skoðanaskipti og ýmsir æft sig sem eru nýsestir á þing og gaman hefur verið að fylgjast með því. Ég fagna líflegri þátttöku frá fjölmörgum þingmönnum. Það er ánægjulegt og til marks um að hér verður líflegt þinghald og öflug þátttaka þingmanna sem er alltaf gott og ánægjulegt.

Ég vil svara spurningum hv. síðasta ræðumanns þannig þegar spurt er af hverju ekki er hægt að vinna þessa vinnu í bönkunum. Hv. þingmaður hefur ef til vill ekki verið kominn þegar ég flutti framsöguræðu mína eða svaraði skömmu eftir upphaf hennar í andsvari og sagði það alveg skýrt að langbest væri náttúrlega að öll verkefni leystust þar. Það var langbest ef aldrei þyrfti á þetta eignaumsýslufélög að reyna en það væri stofnað, það væri til staðar ef niðurstaðan yrði í einhverjum, helst sem allra fæstum, tilvikum að það væri vænlegri leið til að greiða úr vandanum heldur en að bankarnir glímdu við þau í þeim tilvikum t.d. að þau væru mjög stór, hverjum banka um sig nánast ofviða. Þau væru mjög flókin eða þau væru þess eðlis að þau tengdust mörgum bönkum og áhöld gætu verið um það hver ætti að taka forustu í endurskipulagningarverkefninu. Það er þannig í mörgum tilvikum vegna ýmiss konar tengsla að lán og skuldbindingar geta legið á mörgum stöðum og það getur orðið dálítið flókið úrlausnarefni að finna hver á þá að taka forustuna í slíkum tilvikum. Eða ef menn eru sammála um að um væri að ræða svo stórt og viðamikið, þjóðhagslega mikilvægt fyrirtæki að þetta væri betri leið til að tryggja að ekki yrði röskun á starfsemi þess og engum hagsmunum væri teflt í tvísýnu. Það er alveg rétt að bankarnir eru að vinna að þessu hörðum höndum. Það verður ákaflega mikilvægur hluti af starfsemi bankanna að greiða úr málum, ekki bara stærstu og erfiðustu verkefnanna sem ekki taka þó því miður mestan tímann og mesta orkuna, heldur á vanda lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Ég hef ekki síður áhyggjur af því að setja þurfi í forgang þá vinnu að greiða úr málefnum ýmissa minni aðila sem kannski hafa verið látnir bíða svolítið vegna þess að menn hafa verið uppteknir af stóru dæmunum og stóru hagsmununum. En það mun að sjálfsögðu nákvæmlega hér eins og annars staðar skipta ekki síður miklu hvernig tekst til í úrvinnslu mála hins almenna atvinnurekstrar, lítilla og meðalstórra fyrirtækja, nýrra fyrirtækja, að þau komist af stað og eigi sér lífsvon. Uppspretta starfa og nýsköpunar er þegar upp er staðið yfirleitt í litlum og meðalstórum fyrirtækjum og sprotafyrirtækjum en ekki endilega í rekstri stórra fyrirtækja sem gjarnan vaxa frekar þannig að þau kaupa upp minni fyrirtæki sem eru með áhugaverða starfsemi innan sinna vébanda.

Kannski duga engar yfirlýsingar í þessum efnum. Ég er margbúinn að segja þetta í dag og líka um daginn þegar þetta var rætt í vetur. Frumvarpið hefur verið sniðið að því að þetta væru undantekningartilvik, stór, afdrifarík, þjóðhagslega mikilvæg. Fyrstu hugmyndir voru reyndar um að ganga miklu lengra og umræða var um að þetta ættu kannski að vera 15 stærstu fyrirtækin í hverjum banka fyrir sig, og ég sagði nei. Það er ekki nálgun sem mér líst gæfulega á. Við skulum ekki vera að tala um fjölda hér, við skulum ekki að tala um stærðarmörk heldur reyna að skilgreina þau afmörkuðu fáu viðfangsefni sem kannski er betra í samstarfi bankanna, og þá þessa aðila ef hann kemur til, að ákveða að verði meðhöndluð svona. Ég endurtek það að yfirgnæfandi líkur eru á því að hér kæmu eingöngu við sögu fyrirtæki sem hvort eð er væru komin í hendur ríkisins vegna þess að eins og hv. þm. Pétur Blöndal sagði, skaðinn er skeður, vandinn er þarna. Ef það er eitthvað sem ég sakna kannski pínulítið úr umræðunni — sem hefur verið mikið um formið og mikið um það hvort þetta sé rétti umbúnaðurinn og jafnvel það hvort ráðherra sé rétti maðurinn til að fara með þessi verkefni, en þeir koma og fara eins og kunnugt er en lögin blífa vonandi eitthvað — þá er það það að ekki skuli hafa verið rætt meira um vandann sjálfan sem er gríðarlegur og bankar upp á á hverjum einasta degi. Við þurfum ekki annað en fletta blöðum til að sjá að við erum í gríðarlegum vanda vegna þess að atvinnulífið er allt of skuldsett. Það var reyndar orðið það fyrir bankahrunið og vandi okkar Íslendinga er ekki bara frá 6. október, það er því miður mikill misskilningur. Íslenskt atvinnulíf og íslensk heimili voru orðin ískyggilega skuldsett á árunum áður en hrunið varð. Það var undarlega lítið áhyggjuefni þeirra sem voru að skoða þjóðhagslegar stærðir, þegar t.d. hreinar erlendar skuldir Íslands fóru yfir 100% af landsframleiðslu fyrir nokkrum árum og allir ypptu öxlum, þegar fyrst íslenskt atvinnulíf og síðan íslensk heimili toppuðu lista OECD-ríkjanna í skuldum og menn sögðu: Góðæri. Svo var siglt áfram. Þessi vandi er uppsafnaður, hann er umfangsmikill og við erum með allt of mikla skuldsetningu í samfélaginu á máttarstoðum okkar og nú, því miður, er ríkissjóður að bætast í hópinn sem var eina ljósið í myrkrinu á meðan hann var að borga niður skuldir og var um tíma um það bil skuldlaus. En aðrar máttarstoðir samfélagsins, heimilin, atvinnulífið og sveitarfélögin voru því miður allt of skuldug. Þess vegna er staðan eins og hún er. Það er svona sem í þessu máli liggur, hvort ekki sé hyggilegt að þetta tæki verði til staðar þegar eða ef á það kann að reyna. Þannig hefur þetta verið unnið í viðræðum við bankana og ég hygg að ég geti sagt að þeir eru miklu sáttari við nálgunina núna en þeir voru í byrjun. Það ber alls ekki að taka þetta sem vantraust á bankana. Þeir eru að vinna hörðum höndum og reyna sitt besta, held ég að megi fullyrða, við erfiðar aðstæður til að greiða úr vanda skuldugra fyrirtækja og heimila.

En það er heldur ekki einföld og gallalaus nálgun að það sé í höndum banka. Við höfum ekki góða reynslu af því, t.d. frá fyrri árum þegar bankar áttu og ráku um árabil fyrirtæki af tiltekinni starfsemi. Það er hérna ónefndur banki sem rak stóran hluta svínaræktar í landinu í nokkur ár í samkeppni við önnur svínabú sem einkaaðilar voru að berjast við að halda á floti. Það er heldur ekki gott fyrirkomulag. Sambúð banka við fyrirtæki sem hann yfirtekur tímabundið og neyðist til að eiga þá um einhvern tíma er heldur ekki vandalaus, jafnvel ekki þó það sé sett í eignaumsýslufélag og búin til armslengd frá bankanum sjálfum sem viðskiptabanka og skuldaúrvinnslunni eða endurskipulagningunni. Það er heldur ekki vandalaust.

Varðandi ríkisvæðingartal þá verð ég að segja að það mun ekki eiga við og á ekki við fyrr en þá að hugsanlega reyndi á þau ákvæði laganna að fjármálastofnun sem ekki er í eigu ríkisins óskaði eftir samstarfi við eignaumsýslufélagið um úrvinnslu einhverra mála. Af jafnréttisástæðum er ekki lokað á það í frumvarpinu, enda hefði verið hæpið að neita slíkri ósk ef hún hefði komið frá sjálfstætt starfandi fjármálafyrirtæki en ekki frá einum af ríkisbönkunum.

Sú leið var ekki farin sem sumir ráðgjafanna mæltu með að stofna hérna sjöunda bankann, eins og ég fór yfir í ræðu minni. Það er að mínu mati búið að reyna að þrengja og skilgreina þetta miðað við aðstæður okkar, taka mið af mismuninum sem er hér og því sem var í Svíþjóð og átta sig á því hvað gæti verið í húfi hjá okkur og hvernig væri þá vænlegast að leysa málið.

Þetta, virðulegur forseti, vildi ég fá að segja í lokin. Ég fagna því að hv. þingnefnd taki þetta til rækilegrar skoðunar og það er náttúrlega yfirleitt alltaf til bóta að þingnefndir leggist vel yfir mál. Engu að síður verð ég að segja að það væri æskilegt nú, ef málið næði afgreiðslu á þessu þingi því það mun síðan taka nokkurn tíma að undirbúa stofnun félagsins. Um það á að eiga samstarf í fyrsta lagi viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra, í öðru lagi ráðherra og aðilar vinnumarkaðarins, í þriðja lagi ráðherra og Seðlabankinn og í fjórða lagi ráðherra og viðkomandi þingnefndir. Reynt er að fara nokkuð vandaða leið í þeim efnum að sjónarmið komi víða að í þeirri vinnu áður en endanlegar reglur verða mótaðar, viðmiðunarreglur fyrir stjórn og framkvæmdastjóra þessa fyrirtækis.

Um fagþekkinguna sem spurt var um er það kannski einmitt ein hugsun þessa máls og eitt af því sem hefur verið lögð áhersla á hjá bæði innlendum og erlendum ráðgjöfum, að mjög mikilvægt sé að menn safni saman með ráðningu hæfra starfsmanna og slíkri uppbyggingu fagþekkingar á þessu sviði sem er ekki sjálfgefið að sé til staðar. Og eins og hér var nefnt áður á uppgangstímum í atvinnulífinu, þar sem ekki reyndi mikið á hluti af þessu tagi, voru menn kannski ekkert að sérhæfa sig í því hvernig tekur ákaflega illa statt fyrirtæki á sem er komið af fótum fram og hverra eigendur eru þrotnir að kröftum og geta ekki sett inn í það meira fé — og hvernig endurskipuleggurðu það? Ekki við þær aðstæður að auðvelt sé að hóa í næsta aðila og hann komi með full vasa fjár. Nei, það eru almennt erfiðar aðstæður í öllu samfélaginu og ekki bara fá heldur mikill fjöldi fyrirtækja er í erfiðleikum. Við erum að tala um úrlausn mála við slíkar kreppuaðstæður og það er við þær aðstæður sem aðrar þjóðir hafa yfirleitt reynt að fara einhverjar svona leiðir. Þetta er ekkert vandamál ef bara eitt og eitt fyrirtæki lendir í erfiðleikum og nógir aðrir eru tilbúnir til að fylla í skörðin, annaðhvort með því að kaupa og endurskipuleggja viðkomandi fyrirtæki eða bara einfaldlega hefja rekstur við hliðina á því. En núna erum við ekki í slíkum aðstæðum. Við verðum að horfast raunsætt í augu við það og glíma við þessa erfiðleika með það að markmiði að gera okkar besta, að lágmarka alls staðar skaða þar sem hann er annars að verða og tryggja að ekki komi rof í starfsemi. Því það er nefnilega hárrétt sem hv. þm. Pétur Blöndal sagði að mikil verðmæti geta verið í fyrirtæki þótt það sé þrotið að kröftum hvað varðar fé. Þau eru fólgin í þekkingunni, í viðskiptasamböndunum, í starfsfólkinu og í ýmsum slíkum hlutum en þau verðmæti brenna mjög hratt ef starfsemin stöðvast og allt fer á versta veg. Þess vegna er það mjög mikilvæg gæsla hagsmuna, oft við slíkar aðstæður, að tryggja að endurskipulagningin geti gengið hratt og skilvirkt fyrir sig. Þannig verður að reyna að nálgast þessa hluti og vonandi í sæmilegu samstarfi og samkomulagsandrúmslofti.

Frú forseti. Að lokum þakka ég fyrir umræðuna og óska hv. þingnefnd góðs í sínum mikilvægu störfum við að skoða þetta mál og örugglega fleiri sem hún fær frá mér á næstunni.