137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[17:09]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég skil svar hæstv. fjármálaráðherra þannig að bankarnir séu að skreppa svo mikið saman að þeir verði orðnir það litlir að hugsanlega komi upp mál sem verði of stór fyrir þá og þar af leiðandi þurfi menn að vera tilbúnir til að setja af stað eitthvað sem er nógu stórt til að taka við þeim málum. Það væri mjög áhugavert að fá að heyra hvað hæstv. fjármálaráðherra gerir ráð fyrir að slíkt geti kostað ef þetta stóra mál kemur upp sem bankarnir verða orðnir of litlir fyrir. Það þarf þá að ráða gríðarlegan fjölda starfsfólks, sem verður væntanlega fleira en í bönkunum, og finna því aðstöðu.

Maður veltir líka fyrir sér varðandi kostnaðinn, þær 20 millj. sem gert er ráð fyrir á ári hverju, hvernig hann er reiknaður. Væntanlega eru það laun, kaffi og leigukostnaður fyrir húsnæði og sitthvað fleira, en hvað með þá peninga sem þyrfti að setja inn í fyrirtækin? Ég geri ráð fyrir því að mörg þessara fyrirtækja verði í verulegum vandræðum, annars færu þau varla inn í þetta „apparat“, en hvernig ætlar þetta eignaumsýslufélag að vera í stakk búið til að halda þeim í rekstri? Það verður væntanlega miklu meiri kostnaður en 20 millj. Hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér að við fjármögnum það?

Af því að hann kvartar yfir því að hann sé búinn að svara spurningum 15 sinnum ætla ég að bera fram spurningu, líklega er það í fimmtánda skipti sem hún er borin fram eða þar um bil: Getur ráðherrann nefnt dæmi um fyrirtæki sem hann telur þeirrar gerðar að það þurfi að fara inn í þetta félag?