137. löggjafarþing — 4. fundur,  20. maí 2009.

samskipti við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn -- Tónlistarhús.

[13:34]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hv. þingmanni ætti ekki að koma heimsókn sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sérstaklega á óvart því hún er í framhaldi af umsaminni heimsókn sjóðsins um mánaðamótin febrúar/mars. Í fréttatilkynningu sem sjóðurinn gaf út í framhaldi af þeirri heimsókn og hv. þingmaður getur fundið á vefnum island.is greinir sjóðurinn frá því að í grófum dráttum gangi samstarfsáætlunin ágætlega eftir og í öllum meginatriðum sé hún í samræmi við þær áætlanir sem gerðar voru en eftir séu nokkur tæknileg úrlausnarefni.

Þá greinir hann jafnframt frá því að breytingar séu að verða bæði á peningamálastefnunni og á stefnunni í ríkisfjármálum. Eins og hv. þingmaður man eflaust var Alþingi einmitt á meðan á þessari heimsókn stóð að samþykkja ný lög um Seðlabanka Íslands og meðan sendinefndin var hér stödd var verið að skipa nýjan seðlabankastjóra og setja peningamálastefnunefnd fyrir Seðlabankann. Þá var aðeins mánuður liðinn frá því að ný ríkisstjórn hafði tekið hér við í kjölfar búsáhaldabyltingar og búið að boða til alþingiskosninga sex vikum síðar þannig að hingað er sendinefnd komin til að fara í gegnum þessi tæknilegu úrlausnarefni sem lúta aðallega að heildarstöðu þjóðarbúsins, ekki ríkissjóðs sjálfs heldur fyrirtækja ríkisins og þó einkum hvað varðar einkageirann sjálfan og þá sömuleiðis væntanlega að fara yfir stöðuna í peningamálastefnunni og í þeim breytingum sem fram undan eru í ríkisfjármálum. Nefndin er þegar komin til landsins og fundar þessa viku og fram á mánudag með ýmsum aðilum í íslensku samfélagi og mun síðan, að ég hygg, á fimmtudag í næstu viku halda blaðamannafund og kynna niðurstöðu heimsóknar sinnar. Þá getur stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í framhaldi af því væntanlega fjallað um skýrslu nefndarinnar (Forseti hringir.) og afgreitt áfangalán til Íslands samkvæmt áætlun.