137. löggjafarþing — 4. fundur,  20. maí 2009.

samskipti við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn -- Tónlistarhús.

[13:44]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á því að óska hv. þm. Guðbjarti Hannessyni til hamingju með að vera formaður fjárlaganefndar. Það er mjög veigamikið verkefni núna í þessum erfiðleikum þjóðarinnar og það mun reyna mikið á fjárlaganefnd á næstunni við að ná fjárlögum ríkisins aftur á núll.

Borist hafa fréttir um að hæstv. menntamálaráðherra hafi ákveðið að halda áfram að byggja tónlistarhús. Mig langar til að spyrja hv. þm. Guðbjart Hannesson eins og forvera hans — ég hef spurt nokkrum sinni að því: Hvar kemur þessi fjárhæð fram í fjárlögum? Það er nefnilega þannig að í fjárlögum 2003 kemur fram í grein 7.7, Ýmsar heimildir, með leyfi frú forseta:

„Að stofna félag um rekstur tónlistar- og ráðstefnuhúss í Reykjavík á grundvelli samnings við Reykjavíkurborg og greiða nauðsynlegan kostnað vegna þess.“

Og viti menn, þessi örstutta, litla grein kostaði þjóðina 25 milljarða og það er ekki orð um það í fjárlögum. Það er ekki nein tala neins staðar. Ég spyr: Hefur komið fram hvað þessi ákvörðun hæstv. menntamálaráðherra kostar ríkissjóð mikið? Hvaða upphæð er þetta og munum við eiga von á því að sjá það annaðhvort í fjárlögum eða lánsfjárlögum? Samkvæmt 41. gr. stjórnarskrárinnar er bannað að greiða fé úr ríkissjóði nema með fjárlögum eða fjáraukalögum. Mig langar til að vita hvað þetta muni kosta mikið til viðbótar á sama tíma og menn eru að skera niður almannaþjónustu og svo framvegis. Ég þarf ekki að nefna það. Þá eru menn að fara út í gífurlegan mikinn kostnað sem að mínu viti er að töluverðu leyti borgaður með gjaldeyri og það er heldur ekki mikið til af honum í landinu.