137. löggjafarþing — 4. fundur,  20. maí 2009.

áform ríkisstjórnarinnar um fyrningu aflaheimilda.

[14:21]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Eftir að hafa hlýtt á hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra verð ég að segja að ég er ekki alveg viss um hvort ríkisstjórnin ætlar í fyrningarleiðina eða ekki. Það getur vel verið að hér sé einungis á ferðinni enn ein áætlunin um að hugsanlega skuli stefna að fyrningarleið. Satt að segja er það ekki alveg ljóst og hæstv. sjávarútvegsráðherra mun væntanlega skýra það. En ég ætla að ganga út frá því í þessari stuttu ræðu minni að fara eigi fyrningarleiðina, og ræða kosti hennar og galla.

Í fyrsta lagi: Í umræðu um þetta vandasama málefni, sjávarútvegsmál, held ég að mikilvægt sé að viðurkenna að margir eru reiðir út af sjávarútvegsmálum. Það er skiljanlegt. Þurft hefur að grípa til margra sársaukafullra aðgerða í greininni. Fyrir það fyrsta þurfti að horfast í augu við að um takmarkaða auðlind er að ræða. Takmarka þurfti aðgengi að fiskinum í sjónum. Það var sársaukafull aðgerð fyrir margar byggðir í landinu. Síðan þurfti að horfast í augu við að nauðsynlegt var að hleypa öðrum að þannig að menn þurftu að geta keypt sig inn í greinina eða leigt sig inn í hana. Það hafði í för með sér að aðrir seldu eða leigðu. Í kerfi sem ekki er hægt að framselja heimildirnar er væntanlega ekki heldur hægt að kaupa sig inn í kerfið þannig að þetta var líka gert og það olli miklum sársauka.

Við þurfum líka að viðurkenna að það þarf að skýra að þjóðin á auðlindina og það þarf að setja það inn í stjórnarskrá og hefur Framsóknarflokkurinn barist fyrir því. Ég held raunar að þessi umræða öll sýni að við lítum öll svo á að þjóðin eigi þessa auðlind vegna þess að ef við þurfum að innkalla veiðiheimildirnar gerum við það í krafti þess að þjóðin á þessa auðlind.

En spurningin er hins vegar þessi: Þó svo að þjóðin eigi auðlindina og hið opinbera hafi þar með rétt til þess að kalla inn heimildirnar, á hún þá að gera það? Eigum við að gera það bara vegna þess að við höfum réttinn til þess? Við verðum að ræða þetta mál af skynsemi og anda með nefinu. Að hafa þennan innköllunarrétt, að þjóðin eigi fiskinn í sjónum, þýðir ekkert endilega að fara eigi fyrningarleiðina. Það er ekki rökrétt framhald af þessari niðurstöðu að það eigi endilega að innkalla kvótann.

Af hverju ættum við ekki að innkalla kvótann núna? Í fyrsta lagi yrði það óréttlátt. 90% þeirra sem veiða fisk núna — þetta er harðduglegt fólk og í flestum tilvikum er um að ræða vel skipulögð og vel rekin fyrirtæki — hafa keypt sig inn í þessa grein á þeim forsendum sem þeim voru lagðar, samkvæmt þeim leikreglum sem þeim var uppálagt að spila eftir. Með því að fyrna veiðiheimildir þessa fólks skiljum við eftir útgerðarmenn og útgerðarfyrirtæki, sem síst skyldi, í sárum og upplausn. Athugið að við erum að tala um störf. Við erum að tala um að innkalla störf. Við sköpum þar af leiðandi óvissu í byggðunum. Við erum ekki bara að tala um einhverja einstaka útgerðarmenn hér og þar. Við erum að tala um útgerðarfélög. Við erum að tala um fólk sem starfar í þessum fyrirtækjum.

Síðan er algjörlega óljóst hvaða kerfi tekur við og það er hluti af óvissunni. Ég sagði áðan að um takmarkaða auðlind væri að ræða. Það þýðir að það verður alltaf vandasamt að deila þeim út aftur.

Ég hef aldrei heyrt neina útfærslu eða hvernig stefna skuli að áætlunum um útdeilingu á þessum veiðiheimildum aftur. Ef það verður gert með uppboði eða leigumarkaði er vísast að varanleikinn í greininni sem er grundvöllur fjárfestinga í greininni, fari út úr henni. Það er ekki gott fyrir byggðirnar (Forseti hringir.) og er vísast að við fáum mun verra kerfi og óréttlátara þegar upp er staðið. Leiðarminni þessa brölts alls saman verði þá í orðum Nóbelsskáldsins: „Vont er þeirra ranglæti en verra er þeirra réttlæti.“