137. löggjafarþing — 4. fundur,  20. maí 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög (eignarhald, kynjahlutföll og starfandi stjórnarformenn).

14. mál
[15:13]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var vissulega skoðað á sínum tíma hvort þessi ákvæði væru mjög íþyngjandi fyrir fyrirtæki og þá sérstaklega hvort það væri kostnaðarsamt að standa í þeirri skýrslugjöf sem farið er fram á. Niðurstaðan var ótvírætt að svo væri ekki. Það er t.d. óverulegur kostnaður sem fylgir því að upplýsa um kynjahlutföll í stjórnum eða meðal æðstu starfsmanna og ég held að önnur ákvæði frumvarpsins kalli heldur ekki á neinn kostnað sem heitið getur fyrir fyrirtæki.

Varðandi opinber hlutafélög gilda lög um þau. Síðan eru því miður einnig hlutafélög sem ekki hafa titilinn opinber hlutafélög en hafa komist í hendur ríkisins vegna þeirra hremminga sem fjármálakerfið hefur gengið í gegnum og ég hef ekki tiltækar tölulegar upplýsingar um kynjaskiptingu í stjórnum þeirra fyrirtækja.