137. löggjafarþing — 4. fundur,  20. maí 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög (eignarhald, kynjahlutföll og starfandi stjórnarformenn).

14. mál
[15:31]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur fyrir ræðu sína. Ég hefði mikinn áhuga á að spyrja út í það sem hún sagði hér um það að hún sé ekki fylgjandi því að sett séu ákvæði um ákveðið hlutfall kynja í stjórnum. Nú er það svo að þingið setur ýmis ákvæði í lög eins og það að verið er leggja til að banna að það séu starfandi stjórnarformenn í stjórn fyrirtækja. Það hefur líka verið farið út í svo drastískar aðgerðir t.d. að skylda fólk til að nota bílbelti af því að talið er að þar sé verið að koma á ákveðinni réttri hegðun. En það kemur fram í rannsóknum á Íslandi að þær aðgerðir sem hingað til hefur verið farið í til að jafna hlut kynjanna í atvinnulífinu hafa greinilega ekki dugað til. Það kemur einmitt fram í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Nýlegar niðurstöður rannsókna sýna að hlutfall kvenna í stjórnum og æðstu stjórnunarstöðum fyrirtækja á Íslandi er enn mun lægra en karla.“

Það virðist vera að ákvæðið sem er í lögum núna dugi alls ekki til. Ég mundi því gjarnan vilja fá að heyra frá hv. þingmanni hvernig hún sér fyrir sér að við getum rétt hlut kynjanna í atvinnulífinu ef við erum ekki tilbúin til að setja hreinlega lög um þetta. Við höfum ansi lengi reynt að biðja fólk um að taka þetta til greina og það hefur ekki dugað til.