137. löggjafarþing — 4. fundur,  20. maí 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög (eignarhald, kynjahlutföll og starfandi stjórnarformenn).

14. mál
[15:33]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi einmitt hitt naglann á höfuðið þegar hún segir að við séum alltaf að setja lög og reglur sem ná svo ekki fram að ganga. Það er vandinn í þessu. Það er eitthvað sem veldur því að ekki er farið eftir þessum lögum og reglum. Við setjum öll á okkur bílbeltin, ég held að það sé ekki endilega út af því að það eru lög og reglur heldur að við vitum að við erum öruggari þannig. Ég segi fyrir sjálfa mig að ég set frekar á mig belti til að koma í veg fyrir slys.

Ég mundi frekar í ljósi þess einmitt að þessar aðferðir virðast ekki virka og að við vitum hvað gerst hefur t.d. í Noregi þar sem kynjakvóti hefur verið viðhafður en þaðan berast fregnir af því að ákvarðanirnar eru ekki teknar við stjórnarborðið lengur, þær eru teknar annars staðar. Ég held að það sé ekki til bóta og ekki í rekstri fyrirtækjanna. Það sem ég vil sjá, og þar deili ég markmiðinu, eru fleiri konur í stjórnum fyrirtækja, ekki misskilja mig, það er bara spurningin um aðferðina, hvernig eigum við að ná þeim að borðinu, hvernig eigum við að hleypa þeim að borðinu? Ég mundi miklu frekar vilja sjá einhvers konar hvatningarákvæði, að fyrirtæki séu hvött, að í staðinn fyrir að fyrirtæki séu skikkuð til að gera þetta verði þau hvött til þess með einhverjum hætti á jákvæðan hátt. Ég held, nákvæmlega eins og í barnauppeldinu, að þær aðferðir mundu ganga betur.