137. löggjafarþing — 4. fundur,  20. maí 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög (eignarhald, kynjahlutföll og starfandi stjórnarformenn).

14. mál
[15:35]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að ýmislegt hafi verið gert til þess einmitt að hvetja fyrirtæki til að taka tillit til kynjanna varðandi skipan í stjórnunarstöður og almenn störf og svo núna þar sem við erum að ræða þessar stjórnunarstöður.

Ég verð að segja fyrir mína parta að ég hef verið þeirrar skoðunar að ef við erum ekki tilbúin til að fylgja þessu ákvæði eftir með einhvers konar viðurlögum ef fyrirtæki eru ekki tilbúin til að taka tillit til kynjanna þegar þau skipa í æðstu stjórnunarstöður, þá getum við alveg eins sleppt þessu, þá getum við alveg eins kippt þessari grein út úr lögunum því að það verða að vera einhver viðurlög. Í jafnréttislögunum, það er þegar til löggjöf þar sem eru ákveðin tilmæli um jafnréttisáætlun og annað. Ég sé ekki hver tilgangurinn er með því að bæta þessu inn í þessa löggjöf ef við erum ekki tilbúin til að fylgja því eftir öðruvísi en að hlutafélagaskráin geti hugsanlega skrifað eitthvert bréf eða minnt fólk á að það eigi að skila þessum upplýsingum inn og þetta sé kannski ekki alveg í lagi hjá því.

Ég mundi því gjarnan vilja heyra frá hv. þingmanni hvort hún taki ekki undir það að þetta sé eitthvað sem viðskiptanefnd þurfi að skoða, að hreinlega kippa þessu ákvæði út ef ekki er meiri hluti innan nefndarinnar fyrir því að setja strangari tilmæli í lögin.