137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

Mats Josefsson og vinna fyrir ríkisstjórnina.

[15:02]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Það liggur fyrir og er margrætt í sölum Alþingis og víðar að til að koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað þarf tvennt. Annars vegar þarf vaxtalækkunarferlið að verða hraðara en raun ber vitni og stefna í ríkisfjármálum að vera skýr — vægast sagt er sú stefna óljós, hún er óviss og hún er algerlega órædd. Hins vegar skiptir endurreisn bankakerfisins miklu máli.

Í fréttum í dag, á forsíðu Morgunblaðsins, segir m.a. að sænski bankasérfræðingurinn, Mats Josefsson — sem var einn helsti sérfræðingur Svía við að koma þeim út úr bankakreppunni og starfsmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til 13 ára — hafi hótað því að segja upp, hætta störfum. Ég vil gjarnan fá að vita það hjá hæstv. forsætisráðherra hvort það sé rétt. Ef það er rétt, af hverju heldur hann áfram? Setti hann einhver skilyrði fyrir veru sinni og um hvaða skilyrði er þá að ræða?

Það er vægast sagt afar óheppilegt að þetta skuli koma fram núna þegar við þurfum að tala skýrt. Nú er tími verkanna, hæstv. forsætisráðherra. Þess vegna þurfum við að fá svör við því hvaða skilyrði Mats Josefsson setti fyrir því að halda áfram.