137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

Mats Josefsson og vinna fyrir ríkisstjórnina.

[15:07]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Mats Josefsson lagði áherslu á að allri vinnu við endurskipulagningu á bönkunum yrði hraðað. Honum fannst hún ganga of hægt og ég geti að mörgu leyti tekið undir það. En ég hef lýst ástæðunum fyrir því að vinnubrögðin gengu ekki hraðar en raun ber vitni. Það komu upp margvísleg vandamál sem menn vissu ekki um þegar þeir lögðu af stað í þennan leiðangur, vandamál sem við höfum smám saman verið að leysa úr. Viðræður við kröfuhafana sem nú eru í gangi, t.d. við endurskoðunarfyrirtækin, hafa tekið lengri tíma og verið flóknari en menn gerðu ráð fyrir.

Síðan er það eitt meginatriðið sem hann leggur áherslu á og við erum að vinna að, þ.e. að efnahagsmálin eru vistuð í þremur ráðuneytum a.m.k. Það er ekki skynsamlegt út frá efnahagslegu sjónarmiði. Við erum að vinna að því máli og á allra næstu dögum verður lagt fram frumvarp til laga um ýmsar breytingar á stjórnkerfinu, m.a. að komið verði á einu efnahagsráðuneyti. Það mun örugglega gera vinnubrögðin skilvirkari en verið hefur á undanförnum árum að því er efnahagsmálin varðar.