137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

lækkun stýrivaxta.

[15:19]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Eins og landsmenn vita er yfirstjórn Seðlabankans í höndum forsætisráðherra og samkvæmt lögum á peningastefnunefnd að ákveða stýrivexti. Ákvarðanir nefndarinnar skulu grundvallast af markmiðum bankans og vönduðu mati á ástandi og horfum í efnahags- og peningamálum og fjármálastöðugleikanum í landinu.

Hæstv. forsætisráðherra og aðrir ráðherrar í ríkisstjórninni hafa talað um að stýrivextir geti lækkað mjög hratt og það gekk að meira segja svo langt að þegar samstarfsyfirlýsingin var undirrituð og kynnt var talað um að stýrivextir gætu verið komnir niður í 2–3% í árslok.

Nú eru engin sýnileg lækkun á stýrivöxtunum í augsýn. Íslendingar búa eins og allir vita við himinhátt vaxtastig og fyrirtækjunum og heimilunum blæðir út vegna þessa. Ríkisstjórnin lítur í hina áttina eins og venjulega, hún hefur, virðist vera, gert sitt til að leggja lóð á vogarskálarnar. Þrátt fyrir fögur fyrirheit virðist ríkisstjórnin ekki hafa þá stjórn á peningamálum sem æskilegt væri því að hið alþjóðlega vald sem fylgir veru Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hér á landi virðist ganga framar sjálfsákvörðunarrétti þjóðarinnar.

Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Hver stjórnar peninga- og stýrivaxtastefnunni hér á landi? Er það hinn norski seðlabankastjóri, peningastefnunefnd eða Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn?