137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

fundir í viðskiptanefnd.

[15:31]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég var að hlusta á morgunútvarpið á Bylgjunni í morgun og þar kom fram, í orðum hv. þm. Magnúsar Orra Schrams, að við hefðum verið upp fyrir haus í viðskiptanefnd alla síðustu viku og það væri fullt að gerast. Ég varð eiginlega svolítið hvumsa. Ég sit í viðskiptanefnd og fundi sem boðaður hafði verið í síðustu viku var aflýst. Ég óska því eftir upplýsingum um hvort þetta séu nýju vinnubrögðin, þ.e. að ekki eigi að boða fulltrúa stjórnarandstöðunnar á fundi í viðskiptanefnd. Er það nýja samráðið og hið svokallaða gagnsæi sem stjórnarflokkarnir hafa verið að boða að ekki er einu sinni talað við stjórnarandstöðuna þegar verið er að funda í viðskiptanefnd?

Ég verð að segja að mér brá í brún að heyra frá varaformanni viðskiptanefndar að verið væri að funda í viðskiptanefnd og ræða málin, væntanlega mikilvæg mál, án þess að boða stjórnarandstöðuna á fund. Ég hefði t.d. talið nauðsynlegt að við hefðum fundað um það að starfsmenn (Forseti hringir.) banka fá ekki greidd laun vegna þess að ákveðin mistök urðu á vegum ríkisstjórnarinnar í apríl og þess vegna hefði einmitt verið ástæða til að funda í viðskiptanefnd (Forseti hringir.) í síðustu viku með fulltrúum stjórnarandstöðunnar.