137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

efnahagshorfur, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:57]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir þessa skýrslu en því miður gefur hún okkur ekki mikla von. Hún kemur hingað upp með gamlar fréttir, fréttir af því að taka þurfi erfiðar ákvarðanir, fréttir af því að ástandið sé alvarlegt, að atvinnuleysið sé mikið, að gengið sé veikt, að illa gangi að endurreisa bankana og síðan er mikil áhersla lögð á að það sé ekki Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sem ráði för heldur stjórnvöld.

Það lýsir kannski ákveðnu vandamáli hversu mikla áherslu hæstv. forsætisráðherra leggur á það, samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn gengur greinilega ekki nógu vel. Við erum ekki á sporinu með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þegar hæstv. forsætisráðherra kemur hér upp, í umræðu undir fyrri dagskrárlið, og lýsir því yfir að það skipti ef til vill ekki öllu máli hvenær við fáum afgreiðslu á lánum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum lýsir það ekki bara alvarlegu skilningsleysi á samstarfinu við sjóðinn heldur líka ákveðnu skeytingarleysi gagnvart því samstarfi yfir höfuð. Þegar gráu er síðan bætt ofan á svart og sagt að það sé alls ekki sjóðurinn sem ráði för fer maður að hafa alvarlegar áhyggjur af því að enn skuli ekki hafa verið gengið frá annarri greiðslu lánsins frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Hvers vegna er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að veita okkur aðstoð? Í fyrsta lagi þurftum við aðstoð hans til að endurreisa bankakerfið, til þess að byggja upp þann sjóð sem nauðsynlegur var, til þess að treysta grunn bankakerfisins á Íslandi og til þess að byggja nægilegar traustar stoðir undir þau verkefni sem biðu okkar en ekkert síður til að skapa þann nauðsynlega trúverðugleika sem okkur skorti eftir hrun fjármálakerfisins á Íslandi. Þegar samstarfið fer síðan að ganga illa og það fer að spyrjast út að helsti sérfræðingurinn sem ráðinn var að beiðni sjóðsins við endurreisn bankakerfisins lýsir megnri óánægju og fram kemur í fjölmiðlum að hann vilji hætta er allur þessi trúverðugleiki í uppnámi.

Það þarf að gera hlutina í réttri röð. Hér er mikið rætt um vexti, mikið rætt um afnám gjaldeyrishafta og um atvinnuleysi. En til þess að við getum tekist á við þessa þætti verðum við fyrst að leggja fram skýra stefnu um það hvernig taka eigi á þessum mikla halla ríkissjóðs. Hvernig ætlum við að vinna okkur út úr þeirri stöðu að á fjárlögum er búið að taka ákvarðanir um að verja mun meira fé til sameiginlegra verkefna en aflað er á hverjum tíma? Hvernig ætlum við að takast á við þá stöðu að tekjur ríkisins eru að dragast stórlega saman á sama tíma og ekki hafa enn komið fram tillögur um hvernig draga eigi úr útgjöldunum?

Ég lýsi yfir mjög mikilli óánægju með að engin svör komi frá hæstv. forsætisráðherra. Hæstv. forsætisráðherra tók við búinu sem nýi verkstjórinn sem ætlaði að bretta upp ermarnar og taka til hendinni, að hennar sögn var verkstjórnin í fyrri ríkisstjórn ekki nægilega kraftmikil og skýr. Verkstjórnin í þessari ríkisstjórn er með þeim hætti að þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi starfað frá 1. febrúar höfum við engin svör fengið. Við erum algjörlega á gati þegar kemur að því hvernig ríkisstjórnin ætlar að loka fjárlagagatinu, hvernig á að ná endum saman í ríkisfjármálunum. Þetta er alvarlegt vegna þess að þetta er forsenda þess að við getum farið að hafa væntingar um að vextir lækki og auk þessa þurfum við að sjálfsögðu að endurreisa bankakerfið. (Gripið fram í.)

Núna þegar gengi krónunnar er í sinni lægstu stöðu, gengisvísitalan í kringum 230, koma fyrst fram hjá hæstv. viðskiptaráðherra og síðan, héðan úr ræðustóli Alþingis í dag, frá hæstv. forsætisráðherra, skilaboð um að verið sé að taka til skoðunar að snúa öllum erlendu lánunum sem eru útistandandi til bankanna yfir í íslenskar krónur, einmitt þegar staða krónunnar er sem veikust. Ég segi fyrir mitt leyti: Það standa engar lagaheimildir til þess að gera þetta. Það er alveg ljóst að á grundvelli þeirra samninga sem eru útistandandi til bankanna er engin heimild til slíkrar almennrar aðgerðar gagnvart öllum þeim sem skulda í íslenska bankakerfinu í erlendum gjaldmiðlum. Maður hlýtur að kalla eftir upplýsingum um það, þegar hæstv. forsætisráðherra stígur fram og tekur undir með viðskiptaráðherra um að þetta kunni að vera lausnin á krísunni sem stjórnvöld eru í við endurreisn bankakerfisins, hvernig þetta eigi að gerast. Hvað á það að þýða að koma fram með hugmyndir af þessum toga sem eru stórkostlega alvarlegar og taka frá fyrirtækjunum og mörgum heimilum vonina um að með sterkari krónu muni skuldabyrðin eitthvað léttast? Hvað á það að þýða að koma fram með slíkar hugmyndir án þess að koma fram með svörin við því hvernig úr þessum vandamálum öllum á að greiða?

Í umræðum um efnahagsmálin hefur verið rætt um að lausn væri í því fólgin, ekki bara til skamms tíma heldur líka til lengri tíma, að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það er alveg skýrt að umsókn um Evrópusambandsaðild gerir ekkert fyrir okkur í samanburði við það að fram komi skýr stefna í ríkisfjármálunum um það hvar eigi að skera niður. Ég nenni ekki lengur að hlusta á það frá hæstv. ríkisstjórn að þetta verði erfitt og að það muni þurfa að taka erfiðar ákvarðanir. Ég hef margoft tekið það fram fyrir hönd míns flokks að við gerum okkur grein fyrir því og við munum styðja allar skynsamlegar tillögur. Þessar aðgerðir þola enga frekari bið. Það þarf að grípa strax til þeirra aðgerða sem nauðsynlegar eru ella vex vandinn. Það er reyndar alveg stórmerkilegt að við skulum hafa háð heila kosningabaráttu án þess að tekist væri á um leiðir í þessum efnum. Öllum hugmyndum sem komu frá Sjálfstæðisflokknum í þessu efni var vísað á bug sem of almennum og að þær mundu lenda of harkalega á velferðarkerfinu. Þetta er ómálefnaleg gagnrýni vegna þess að hana mátti útfæra með ólíkum hætti í einstökum ráðuneytum en alvarlegast af öllu er þó að enn hefur ekkert komið fram.

Varðandi Evrópusambandsumsóknina sem slíka er ágætt að setja þá hluti í samhengi við það þegar við sóttum um lánið til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Í ljós kom að með Icesave-deiluna óleysta fór það mál allt saman í hnút. Evrópusambandsríkin þvinguðu íslensk stjórnvöld að samningaborðinu. Ég tel reyndar að það hafi verið skynsamleg leið að byggja á þeim samþykktu viðmiðum sem lágu til grundvallar þeim viðræðum sem settar voru af stað fyrir mörgum mánuðum, en það er greinilega ekkert að gerast. Það er augljóst að Evrópusambandsríkin sem í hlut eiga, sérstaklega Bretar og Hollendingar, virðast ekki ætla að taka nokkurt tillit til þeirra aðstæðna sem upp eru komnar á Íslandi heldur einfaldlega þvinga fram greiðslu á þeim kröfum sem þeir telja sig eiga á íslensk stjórnvöld. Og láta menn sér detta í hug að nú verði hægt að leggja af stað í nýjan leiðangur gagnvart þessum sömu ríkjum með þessa deilu óleysta (Gripið fram í.) og byggja á því að hægt sé að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið? Ég kalla eftir skýrum svörum um það hvort stjórnvöld ætli að láta krefja sig um greiðslu umfram það sem lagt var upp með. Ég minni á að af hálfu utanríkismálanefndar, sem afgreiddi þingsályktunartillöguna, var það alveg skýrt að of stífar kröfur af hálfu Breta og Hollendinga og þeirra sem í hlut eiga gætu vel leitt til þess að enginn yrði samningurinn um niðurstöðuna í þessu efni. Það var alveg skýrt.

Ég kalla eftir því frá hv. ríkisstjórn að hún fari að hætta að tala um vandamálið, fari að koma fram með hugmyndir, skýrar lausnir. Við í stjórnarandstöðunni í Sjálfstæðisflokknum munum sannarlega styðja slíkar hugmyndir séu þær skynsamlegar og til þess fallnar að leysa vandann. En menn verða að hafa tvennt í huga: Fyrst þarf að leysa ríkisfjármálin og svo þarf að endurreisa bankakerfið. Þá þýðir ekki að vera með eitthvert hálfkák og óljósar hugmyndir um það hvernig það eigi að gera. Það er nákvæmlega ekkert gagnsæi eins og lofað var í því ferlinu. Verðmatið sem átti að kynna fyrir almenningi núna í apríl er enn dulkóðað í einhverju herbergi. Þegar þetta tvennt hefur verið leyst geta menn farið að hafa væntingar um það að skilyrði skapist til þess að lækka vexti og í framtíðinni síðan að afnema gjaldeyrishöftin. Ekkert af því er raunhæft fyrr en menn hafa leyst stóru verkefnin. Hættið að tala um hvað það verði erfitt og komið með tillögur um það hvernig þið viljið að það verði leyst. (Gripið fram í: Hvar eru þínar?)