137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

efnahagshorfur, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:02]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Íslenska efnahagshrunið er það stærsta meðal þróaðra hagkerfa. Hrunið átti sér langan aðdraganda glannaskapar, vanþekkingar og ábyrgðarleysis. Það verða allir að viðurkenna nú. Að sama skapi mun það taka tíma og þolinmæði að vinna okkur út úr vandanum.

Í nýafstaðinni kosningabaráttu lá stefna ríkisstjórnarinnar ljós fyrir. Almenn niðurfelling skulda heimila og fyrirtækja er ekki á dagskrá, heldur skal leita allra leiða til að aðstoða þá verst settu og gera fólki kleift að búa áfram í húsnæði sínu eftir megni. Til að ná þessu markmiði hefur ríkisstjórnin komið mörgum atriðum í framkvæmd, allt frá frystingu lána til hækkunar vaxtabóta.

Fyrir utan Framsóknarflokkinn og Borgarahreyfinguna boðaði enginn flokkur almenna niðurfærslu skulda. Talsmenn þessara flokka geta því ekki komið í þingsal eftir kosningar og kvartað yfir því að ríkisstjórnin sé ekki að framkvæma þeirra stefnu. Sú stefna fékk ekki brautargengi í nýafstöðnum kosningum.

Vissulega lýstu einstaka frambjóðendur og flokksmenn í öllum flokkum yfir áhuga á niðurfærslu í einhverri mynd og sú umræða mun halda áfram. Hún verður að taka mið af þrennu. Í fyrsta lagi þarf niðurfærslan að vera réttlát. Í öðru lagi þarf að ríkja sátt um niðurstöðuna og í þriðja lagi verður þjóðin að hafa efni á slíkri niðurfærslu.

Talsmönnum almennrar niðurfærslu skulda hefur því miður ekki tekist að uppfylla neina af þessum kröfum, hvað sem síðar verður. Ríkisstjórnin mun fylgjast grannt með stöðu heimilanna eins og boðað er í stjórnarsáttmálanum og grípa til viðeigandi úrræða.

Hæstv. forseti. Stjórnmálamenn verða að tala af hreinskilni við þjóðina. Engin efnahagsaðgerð getur komið í veg fyrir eignarýrnun og tekjutap. Verri lífskjör til lengri tíma eru óhjákvæmileg afleiðing hruns bankakerfisins og íslensku krónunnar. Það er hin dapurlega staðreynd.

Við þær aðstæður sem nú ríkja er samstaða þjóðarinnar rík nauðsyn. Atvinnuleysi er meira en þjóðin hefur kynnst um áratugaskeið og okkur ber skylda til að tryggja velferð atvinnulausra. Í þeim niðurskurði á ríkisfjármálum sem fram undan er verðum við að sýna samstöðu til að tryggja grunnþjónustu og réttláta skattheimtu. Síðast en ekki síst hefur ríkisstjórnin hafið samstarf við aðila vinnumarkaðarins um gerð stöðugleikasáttmála.

Endurreisn bankakerfisins er án efa mikilvægasta verkefni stjórnvalda um þessar mundir. Það mál hefur reynst flóknara og erfiðara en gert var ráð fyrir, en vonir standa til að þeirri vinnu ljúki sem fyrst. Til að endurvekja traust á íslensku fjármálakerfi verður að tryggja sjálfbæran rekstur bankanna, hugsanlega með endurskipulagningu, auk þess sem ljóst má vera að lykilstjórnendur bankanna og fulltrúar í skilanefndum verða að vera trúverðugir fulltrúar almannahagsmuna.

Virðulegi forseti. Hruni bankakerfisins fylgdi hrun íslensku krónunnar. Við verðum að búa við íslensku krónuna enn um sinn þó að lág gengisskráning, háir vextir og gjaldeyrishöft segi sitt um hversu lífvænlegt ástand það er til framtíðar. Í þessu ljósi verður að skoða umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Í umsókn felst mikilvæg framtíðarsýn, vegvísir út úr ógöngum efnahags- og peningastefnu síðustu ára. Slík framtíðarsýn mundi án vafa skjóta styrkari stoðum undir íslenskt atvinnulíf og auka traust og trúverðugleika landsins á erlendum vettvangi.

Aðild að Evrópusambandinu er engin allsherjarlausn á vandamálum okkar. Enginn hefur haldið slíku fram nema andstæðingar aðildar. Rómantísk fjallasýn og dásömun á afrekum forfeðranna mun ekki leysa okkar erfiðu mál. Norska krónan er ekki í boði og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mun ekki redda okkur evru. Einhliða upptaka dollars er hættuspil. Flóttanum er lokið, valkostirnir eru áframhaldandi króna eða upptaka evru með aðild að Evrópusambandinu.