137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

efnahagshorfur, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:20]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Bhr):

Frú forseti. Ég er enn að læra á þessi þingstörf. Ef ég skil þetta rétt báðu sjálfstæðismenn um skýrslu forsætisráðherra sem hér er til umfjöllunar. Hvar eru þeir? Mér finnst þeir sýna ótrúlega vanvirðingu að láta sig bara hverfa (Gripið fram í: … þingforseta?) (Utanrrh.: Enginn.) og mér finnst það ekki skipta neinu máli þótt þeir eigi afmæli.

Frú forseti. Ég óska hæstv. ríkisstjórn alls hins besta og ég vona svo sannarlega að henni takist með hjálp okkar og landsmanna allra að koma okkur á þurrt land. Í samfélaginu ríkir ólga og óeining því að fólki finnst það misrétti beitt. Það er satt. Við erum með ónýtan gjaldmiðil, eignir okkar hríðfalla í verði, skuldirnar vaxa og það er ekki útlit fyrir að það breytist neitt á næstunni. Á sama tíma á að minnka gífurlegan fjárlagahalla með því að blóðmjólka fyrirtækin og fjölskyldurnar í landinu.

Hæstv. forsætisráðherra hefur í gegnum tíðina verið málsvari og verndari lítilmagnans í landinu og hef ég oft dáðst að eljusemi hennar, dugnaði og þrautseigju. Nú hef ég hins vegar mestar áhyggjur af því að hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórn hennar ætli að gera okkur öll að litla manninum með aðgerðaleysi og máttleysi og með því að hringsóla eins og köttur í kringum heitan graut og takast ekki á við vandamálin.

Vandamálið er risavaxið. Það er of stórt fyrir tvo flokka og hér þurfum við neyðarstjórn sérfræðinga. Við þurfum að kalla til okkar færasta fólk; fagmenn, sérfræðinga og útlendinga sem eru ekki fastir í neti fjölskyldubanda og vinatengsla. Það þarf mikilmenni til að viðurkenna að verkefnin geti verið fólki ofviða. Ríkisstjórnin getur ekki leyst þennan vanda, sérstaklega ekki með smáskammtalækningum þeirra sem eru úr takti við kröfur fyrirtækjanna í landinu sem eru að sligast undan okurvöxtum og heimilanna sem er að blæða út.