137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

breytingar á ýmsum lögum um óréttmæta viðskiptahætti.

13. mál
[17:30]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingar á ýmsum lögum á þskj. 13, 13. mál, vegna innleiðingar á tilskipun 2005/29/EB, um óréttmæta viðskiptahætti. Frumvarpið er endurflutt nú en er efnislega óbreytt frá síðasta þingi. Það felur í sér innleiðingu á 16. gr. tilskipunarinnar og lýkur þannig innleiðingu hennar. Tilskipunin var að mestu leyti innleidd með breytingum sem gerðar voru á lögum nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, og tóku gildi 7. júní 2008.

Í frumvarpinu eru lagðar til tæknilegar breytingar á tvennum lögum á sviði neytendaréttar. Breytingarnar varða tilvísanir til tilskipana sem þegar hafa verið innleiddar í íslenskan rétt með viðeigandi lagasetningu. Þær voru teknar upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 92/2006 frá 7. júlí 2006, um breytingu á XIX. viðauka við EES-samninginn um neytendavernd. Hér á eftir geri ég stutta grein fyrir þeim breytingum sem frumvarpið felur í sér.

Með innleiðingu á 2. mgr. 16. gr. tilskipunarinnar sem hér um ræðir felst að breyta þarf lítillega 1. gr. laga nr. 56/2007, um samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd, en með þeim lögum var veitt lagagildi hér á landi reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2006/2004 frá 27. október 2004 um samvinnu milli innlendra yfirvalda sem bera ábyrgð á framkvæmd laga um neytendavernd (reglugerð um samvinnu um neytendavernd). Eftir samþykkt breytinga á lögunum mun viðauki við framangreinda reglugerð 2006/2004/EB ekki lengur hafa lagagildi og yrði hann því ekki birtur sem fylgiskjal með framangreindum lögum nr. 56/2007. Viðaukinn geymir upptalningu á ákveðnum EES-gerðum á sviði neytendamála sem þegar hafa verið innleiddar og yrði tilvísun til gerða samkvæmt framansögðu því eftirleiðis á reglugerðarformi.

Til þess að innleiða 1. mgr. 16. gr. tilskipunarinnar þarf að breyta tilvísun til tilskipunar Evrópusambandsins í 1. tölulið 1. gr. laga nr. 141/2001, um lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda. Nú er í 1. gr. 1. töluliðar vísað til tilskipunar ráðsins 84/450/EBE frá 10. september 1984, um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna um villandi auglýsingar. Eftir samþykkt þessa lagafrumvarps verður hins vegar vísað til tilskipunar 2005/29/EB frá 11. maí 2005, um óréttmæta viðskiptahætti gagnvart neytendum á innri markaðinum, þar sem ákvæði um villandi auglýsingar eru innleidd í V. kafla laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Nauðsynlegt er að gera þessa breytingu þar sem tilskipun 2005/29/EB um óréttmæta viðskiptahætti felur í sér breytingar á ákvæðum tilskipunar 84/450/EB, um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna um villandi auglýsingar.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. viðskiptanefndar til frekari umfjöllunar.