137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

breytingar á ýmsum lögum um óréttmæta viðskiptahætti.

13. mál
[17:36]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég velti fyrir mér hvort túlka megi orð hæstv. ráðherra í ræðustóli á þann veg að hann sé að taka undir hugmyndir okkar framsóknarmanna um að fara þurfi í leiðréttingu á gengistryggðum lánum og þá í gegnum samningaviðræður við lántakendur og fjármálastofnunina sjálfa. Mér finnst skipta mjög miklu máli að við þingmenn finnum það eins og þjóðin að þau mál sem við erum að ræða á Alþingi skipti einhverju máli fyrir þá stöðu sem er í íslensku efnahagslífi. Ég ítreka og spyr enn á ný hvort það geti verið að ráðherra sé að taka undir fyrirspurn mína um að hugsanlega geti verið um óréttmæta viðskiptahætti að ræða og ástæða sé til að fara í þá leiðréttingu sem við framsóknarmenn höfum verið að tala fyrir.