137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

hlutafélög með gegnsætt eignarhald og bann við lánveitingum og krosseignarhaldi.

5. mál
[17:57]
Horfa

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um samningu lagafrumvarps um nýja tegund hlutafélaga sem eru með gegnsætt eignarhald og bann við lánveitingum og krosseignarhaldi slíkra hlutafélaga. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Ragnheiður Elín Árnadóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson. Þingsályktunartillöguna er að finna á þskj. 5. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela viðskiptanefnd að semja lagafrumvarp um gegnsæ hlutafélög. Markmið lagasetningarinnar verði að búa til tegund hlutafélaga sem eru með gegnsætt eignarhald, bæði gagnvart eigendum beint og óbeint og einnig gagnvart dótturfyrirtækjum beint og óbeint. Slíkum félögum verði bannað að lána til eða eiga í hlutafélögum sem eiga þau beint eða óbeint. Við samningu lagafrumvarps skal nefndin leita fulltingis sérfræðinga á sviðinu, endurskoðenda, lögfræðinga og hagfræðinga. Viðskiptanefnd skal stefna að því að leggja fram tilbúið frumvarp fyrir 1. febrúar nk. sem gæti tekið gildi 1. maí 2010.“

Frú forseti. Ég vil fyrst benda á að tillagan gerir ráð fyrir að fela viðskiptanefnd þingsins að semja frumvarp. Þetta er nýmæli og ég vildi gjarnan að meira yrði um það að þingnefndir þingsins semdu þau frumvörp sem verða að lögum frá Alþingi. Ég vildi jafnvel ganga lengra og segja að þingnefndir ættu að semja öll frumvörp sem Alþingi samþykkir sem lög. Ferlið ætti að vera það að ráðuneyti, einstakir þingmenn, félagasamtök, fyrirtæki og einstaklingar gætu snúið sér til þingnefnda með beiðni um breytingar á lögum og þingnefndir tækju svo ákvörðun um það hvort þær vilja flytja um það mál eða ekki. Ef þær ákveða að flytja um það mál mundu þær fela nefndasviði Alþingis að semja frumvarp undir ritstjórn og handleiðslu nefndarmanna, þ.e. þingmanna í viðkomandi nefnd. Þetta yrði sú mesta breyting sem orðið gæti til að rjúfa það mikla ráðherra- og flokksræði sem er á Alþingi. Þessi hugmynd kviknaði eiginlega í kjölfar mótmælafundanna sem voru hér í haust og í vetur og er reyndar gamalt mál frá mér, mjög gamalt, en ég tel að þetta mundi svara því kalli að losa okkur undan ráðherra- og flokksræði. Af hverju flokksræði? Jú, vegna þess að í nefndum þingsins er stjórnarandstaðan líka og hún kæmi þá að því að semja viðkomandi mál.

Til þessa þarf enga lagabreytingu. Til þessa þarf enga stjórnarskrárbreytingu, eingöngu þyrfti að breyta verklagi. Hæstv. viðskiptaráðherra hefði t.d., með þau mál sem við ræddum rétt áðan, getað beint því til viðkomandi þingnefnda að semja þau frumvörp. Þá hefði sú spurning kannski ekki komið upp hvort þetta væri í samræmi við stjórnarskrána o.s.frv. Þá hefði þingnefndin sjálf kannað þau mál til hlítar og ráðuneytið getur þá verið upptekið af því að stjórna landinu í staðinn fyrir að vera að semja frumvörp. Ég held að þetta yrði mjög til bóta. Ég vildi bara benda á þetta, þetta eru ákveðin nýmæli.

Menn hafa bent á að það sé engin skylda nefnda að semja frumvörp. Það er vissulega rétt. En það er heldur ekki skylda ráðherra eða ríkisstjórnar að semja frumvörp eða gera eitt og annað sem Alþingi felur þeim að gera. Ef þeir ekki gera það, ráðherrarnir, þá spyr Alþingi: Af hverju er þessi þingsályktun ekki framkvæmd? Á nákvæmlega sama hátt gæti Alþingi spurt formann viðkomandi nefndar: Af hverju í ósköpunum hafið þið ekki samið frumvarpið sem við báðum ykkur að semja? Ef hann segir: Við nennum því ekki eða við viljum það ekki, kýs Alþingi nýja nefnd á viðkomandi sviði því að Alþingi kýs nefndina.

Þingsályktunartillaga var samin og flutt á síðasta þingi og fór umræðulaust til nefndar og það var gert í þeim tilgangi að ná fram umsögnum. Umsagnir bárust frá átta aðilum. Ein kom reyndar seinna eftir að þetta mál var lagt fram og er frá SA en er nokkuð í takt við aðrir umsagnir. Þeir benda á að svona nýtt form kynni að rugla útlendinga sem vildu fjárfesta á Íslandi. En ég hafði alltaf hugsað þetta sem viðbótarákvæði inn í hlutafélagalögin, þ.e. nákvæmlega eins og ohf.-félögin. Það er viðbótarákvæði í hlutafélagalögum, ákvæðið um opinber hlutafélög, og mjög auðvelt er að kynna sér þær breytingar sem eru til viðbótar. Menn vita þá hvaða skilyrði slík félög þyrftu að uppfylla og þegar menn hefðu lesið það og séð hvernig þau virka geri ég ráð fyrir að traust bæði fjárfesta og lánveitenda mundi aukast á þeim félögum sem væru gegnsæ hlutafélög. Það sem hefur brugðist undanfarið er einmitt það að eignarhaldið var ekki gegnsætt og stærstu hluthafarnir voru að lána sjálfum sér gífurlega peninga. Hver skyldi hafa blætt fyrir það aðrir en litli hluthafinn?

Tugir þúsunda Íslendinga eru illa brenndir í kjölfar þessa hruns. Um 43 þús. manns áttu í bönkunum þremur að meðaltali 3 millj. kr. hver. Það er kannski ekki stór upphæð en fyrir venjulegan launamann er þetta töluvert mikil upphæð. Af þessum 43 þús. aðilum eru 11 þús. aldraðir, þ.e. 64 ára og eldri, og þeir aðilar töpuðu líka að meðaltali 3 milljónum. Þetta er þriðjungur aldraðra sem er að tapa þarna 3 milljónum á bankahruninu, bara á einni viku. Þetta er gengið fyrir hrun og gengið eftir hrun sem var núll. Þetta er umtalsvert hrun á eignum og þetta hrun verður vegna þess að búið var að hola bankana að innan. Stærstu hluthafarnir voru búnir að hola þá að innan með lánveitingum til sjálfs sín, krosseignarhaldi og eignarhaldi þvers og kruss. Þetta frumvarp er sett fram til að sníða af þá agnúa og gera þá gersamlega ómögulega.

Einnig barst umsögn frá Félagi löggiltra endurskoðanda sem taldi ekki tilefni til sérstakrar umsagnar. Það finnst mér athyglisvert í ljósi þess að stærsti hluti bankakerfisins á Íslandi hrundi og keðjuverkandi gjaldþrot eru enn að dynja yfir. Maður hefði talið að tilefni væri til umsagnar hjá þeim aðilum sem endurskoðuðu öll þess fyrirtæki og eiga að endurskoða þau. Ég var gáttaður á þessari umsögn þeirra. Þeir hafa hvorki komið með aðrar betri lausnir til að hindra slíkt hrun aftur né aðgerðir til að endurreisa það traust sem farið er forgörðum. Það var aðallega traustið, frú forseti, sem fór forgörðum við þetta hrun. Þess vegna lána bankarnir ekki til fyrirtækja, þess vegna fjárfestir ekki nokkur einasti maður í fyrirtækjum á Íslandi lengur vegna þess að traustið fór og vegna þess að þessi endurskoðuðu fyrirtæki fóru á hausinn. En Félag löggiltra endurskoðenda taldi sem sagt ekki tilefni til sérstakrar umsagnar.

Fjármálaráðuneytið gerir ekki athugasemdir við efnisatriði tillögunnar. Tillagan var ekki rædd og ekki farið í gegnum það hvort hér væri enn verið að leita leiða til að hindra þau ósköp sem yfir landið hafa dunið undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Þeir sögðu ekkert um þetta, ekki var tilefni til sérstakrar umsagnar. Þetta segir kannski heilmikið um Fjármálaeftirlitið. Þar ætti þó að liggja sú þekking og greining á stöðunni sem helst kynni að koma að gagni við hönnun reglna sem hindrað gætu að slík ósköp dynji yfir aftur eða til að endurvekja það traust sem farið hefur forgörðum við hrunið t.d. vegna þess að eftirlitið brást. Ég átti von á því að fá mjög magnaða og góða yfirferð frá Fjármálaeftirlitinu þar sem þeir færu yfir kosti tillögunnar og galla. Ekki orð. Ekki var tilefni til sérstakrar umsagnar segja þeir, og allt fjármálakerfið hrundi vegna þess að eftirlitið brást.

Síðan kom Ríkisendurskoðun. Hún telur, með vísan til lögboðins hlutverks síns, ekki ástæðu til að taka sérstaka afstöðu til tillögunnar. Þó er vafalítið til þekking á þeim bæ til að greina vandann og gefa álit á kostum og göllum reglna sem hindra megi slíkt hrun sem þjóðin hefur orðið fyrir — hrunið hefur skaðað ríkissjóð, sem Ríkisendurskoðun á að gæta, þannig að þetta skiptir ríkissjóð og Ríkisendurskoðun töluverðu máli. En samt töldu menn ekki ástæðu til að veita umsögn og vísa í lögbundið hlutverk sitt, þ.e. að hún væri væntanlega ekki að endurskoða þessi fyrirtæki.

Neytendasamtökin fagna tillögunni og segja fulla þörf á að auka gegnsæi hvað varðar eignarhald hlutafélaga. Kauphöll Íslands telur að aukið gegnsæi í rekstri hlutafélaga geti stutt við endurreisn íslensks viðskiptalífs og að rétt sé að skilgreina mælikvarða sem hlutafélög geti stuðst við. Þau telja þó álitamál hvort lagasetning sé heppilegasta leiðin. Félögin gætu sett sér sjálf reglur um gegnsæi sem Viðskiptaráð héldi utan um og gæfi gæðastimpil. Þetta tel ég engan veginn fullnægjandi, frú forseti. Þeir sem hafa brugðist geta ekki gefið sjálfum sér gæðastimpil. Það er verið að tala um að endurvekja traust aðila sem standa utan við atvinnulífið, að menn fari að fjárfesta aftur, almenningur verði tilbúinn til að fjárfesta aftur, hinir öldruðu sem töpuð 3 milljónum hver fari að fjárfesta aftur. Það er ekki spurning að lánardrottnar, erlendir sem innlendir, séu tilbúnir til að lána þessum fyrirtækjum. Það er traustið sem vantar. Ég tel ekki nóg að koma með einhverjar siðareglur innan greinarinnar, þetta verður að vera lögbundið.

Í umsögn sinni lýsir ríkisskattstjóri markmiðum með setningu laga um hlutafélög en sleppir því mikilvæga hlutverki slíkra fyrirtækja sem er að takmarka áhættu hluthafanna sem þátttakenda. Það er nefnilega þannig að hlutafélög eru stofnuð til að takmarka áhættu hluthafanna. Þeir bera áhættu upp að hlutafé sínu og ekki umfram það. Í umsögn ríkisskattstjóra segir að svo virðist sem sérfræðingar fjármálafyrirtækja hafi lagt meiri áherslu á að fela eða flækja eignarhald fyrirtækja en ganga úr skugga um raunverulegt verðmæti félaga sem fengu lán. Telur ríkisskattstjóri ljóst að ef brotavilji er einbeittur í að misnota aðstöðu sína verði með lagasetningu aldrei að fullu komið í veg fyrir slíkt. Hann telur þó að allar reglur ættu að vera til bóta en bendir á 104. gr. hlutafélagalaga og 79. gr. einkahlutafélagalaga um bann við lánveitingum til eigenda. Ríkisskattstjóri telur að bæta eigi við núgildandi lög ákvæðum sem um ræðir og til verði eins konar stjörnuflokkur með skammstöfuninni ghf. og hefðbundin hlutafélög hefðu þá á sér vafasamari blæ. Hann tekur sem sagt undir þetta og leggur til að slík félög heiti ghf. Það gæti bætt siðferðið í viðskiptalífinu sem allir hlytu að fagna. Lýsir hann sig reiðubúinn til að leggja lið slíkri lagasetningarvinnu sem tillagan stefnir að. Ríkisskattstjóri bendir á að lagasetning ein og sér komi aldrei í veg fyrir einbeittan brotavilja. Nú er t.d. að koma í ljós að menn hafa verið að lána sjálfum sér umtalsverðar fjárhæðir en í lögunum í dag er reyndar merkilegt nokk undanþáguákvæði sem kannski ætti ekki að vera.

Seðlabanki Íslands tekur undir að mikilvægt sé að upplýsingar um lykilþætti fyrirtækja, t.d. eignarhald, séu ljósar. Hann hafi einnig varað við áhættu af útláni til skuldsettra fjárfestingarfélaga vegna mikilla sveiflna í verði. Þá telur hann ljóst að miklar breytingar muni eiga sér stað í regluverki er varðar fyrirtæki í Evrópu á næstu missirum og mun hann fylgjast vel með þróun þeirra mála. Seðlabankinn ætti því að vera vel til þess fallinn að koma að smíði reglna sem koma eiga í veg fyrir að atburðir síðasta hausts endurtaki sig og unnt verði að byggja upp traust sem er forsenda þess að takist að endurreisa atvinnulífið. — Af þessum umsögnum voru eiginlega tvær sem eitthvert innihald var í, þ.e. frá ríkisskattstjóra og Seðlabankanum.

Ástæður fyrir hruni bankanna eru fjölmargar og eflaust enn ekki allar komnar í ljós. Seinni tíma rannsóknir munu leiða það í ljós. Þó er greinilegt að gagnkvæmt eignarhald, raðeignarhald og óljós dulin eign er ein af þeim ástæðum sem ollu því að efnahagur fyrirtækja bólgnaði út og eigið fé sýndist miklu meira en raunverulega var. Lánveitendur virtust hafa lánað út á þetta eigið fé sem ekki var til staðar og þetta sýndarfé gerði fyrirtækjunum kleift að taka meiri áhættu en ella. Gagnkvæmt eignarhald og raðeignarhald jók einnig völd stjórna hlutafélaga á kostnað hluthafa að minni hlut. Gagnkvæmt eignarhald sýndi einnig meiri hagnað en raunverulega var til staðar. Dulin eign hlutafélaga villir um fyrir minni hluthöfum og hefur skaðað þá mikið. Nefnt er dæmi í greinargerðinni, t.d. áttu Kaupþing og Exista á tímabili 20% hvort í öðru og var markaðsvirði hvors hlutar 40 milljarðar kr.

Ég næ ekki að klára þetta, frú forseti, en ég held aðra ræðu á eftir. Ég er ekki búinn með nema helminginn en þetta stendur allt í þskj. 5 sem ég gat um í upphafi.