137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

hlutafélög með gegnsætt eignarhald og bann við lánveitingum og krosseignarhaldi.

5. mál
[18:22]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil nota tækifærið og fagna þessu máli. Ég fagna sérstaklega því nýmæli að viðskiptanefnd muni semja lagafrumvarp um gegnsæ hlutafélög. Ég tel að það sé svo sannarlega þess virði að láta á það reyna og vonast til þess að fleiri málum verði vísað til nefndanna um að semja lagafrumvörp. Við höfum í gegnum árin margítrekað reynt að fá ráðherrana til að gera hitt og þetta og það hefur gengið misjafnlega vel þannig að ég held að það sé alveg ástæða til að við reynum frekar að fá okkur sjálf til að vinna vinnuna.

Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir situr líka í forsætisnefnd og því beini ég því til virðulegs forseta að forsætisnefnd taki þetta upp og ræði hvernig þingið geti tekið á þessu. Formaður viðskiptanefndar talaði um boðvaldið, hugsanlegan samning milli ráðuneyta og þings um samnýtingu starfskrafta og ég held að það væri mjög áhugavert að reyna það, sérstaklega í ljósi þess að tillögur hafa komið fram um að leggja niður aðstoðarmannakerfi landsbyggðarþingmanna. Ég hef ekki verið með aðstoðarmann síðan ég kom inn í þingið þannig að það skaðar mig ekki en ég er viss um að ýmsir þingmenn hafa nýtt sér aðstoðarmenn til að aðstoða sig við vinnuna í þinginu. Það er spurning hvort það geti með einhverju móti styrkt þingið gagnvart framkvæmdarvaldinu að við förum í meira mæli að semja lagafrumvörpin í nefndunum frekar en að við eigum við þetta hvert í sínu horni eða að fá þingmálin í pósti frá embættismannakerfinu