137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

hlutafélög með gegnsætt eignarhald og bann við lánveitingum og krosseignarhaldi.

5. mál
[18:27]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að segja að mér finnst byltingarsinninn í hv. þm. Álfheiði Ingadóttur hafa tapast svolítið þegar hún vill fara varlega í þetta. Ég held að það sé einmitt tækifæri í upphafi nýs þings til að gera svolítið róttæka hluti og mér finnst þetta fyllilega í samræmi við yfirlýsingar forustumanna ríkisstjórnarinnar, þ.e. að þau vilji auka vægi þingsins. Það er talað um að setja á stofn ráðgefandi stjórnlagaþing og ýmsar breytingar hafa verið boðaðar þar sem menn hafa haft áhuga á þjóðaratkvæðagreiðslu. Við framsóknarmenn höfum lengi talað fyrir því að ráðherrar færu af þingi, sætu ekki sem hluti af löggjafarvaldinu. Þetta held ég að væri lítið en mjög mikilvægt skref í rétta átt, að auka vægi löggjafarvaldsins, sem hefur margítrekað komið fram hjá okkur þingmönnunum sem og þeim sem hafa barið á potta hérna fyrir utan og ekki fundist nóg að gert. Ég vona sannarlega að formaður viðskiptanefndar, hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, finni byltingarandann aftur innra með sér og taki slaginn til að sjá til þess að við breytum vinnubrögðunum á þinginu.