137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

hlutafélög með gegnsætt eignarhald og bann við lánveitingum og krosseignarhaldi.

5. mál
[18:30]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum skemmtilega þingsályktunartillögu. Hv. þm. Pétur H. Blöndal, sem líklegast hefur einna lengstu þingreynslu af þeim sem nú sitja á þingi, ber fram tillögu um breytt vinnubrögð á Alþingi. Hann leggur til þingsályktunartillögu um að hv. viðskiptanefnd semji frumvarp um það efni sem hér liggur fyrir. Þetta eru nýmæli í vinnubrögðum og allir þingmenn ættu að fagna því að þingmaður beri slíka tillögu fram.

Margir þingmenn hafa kvartað yfir því að boðvaldið komi frá framkvæmdarvaldinu, frumvörpin komi næstum fullkláruð inn til umsagnar og umræðu en breytist sum hver lítið í meðförum þingsins. Það eru embættismenn í ráðuneytum, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal ræddi áðan, sem búa til frumvörpin í umboði ráðherra, frumvörp sem þeir eiga síðan væntanlega að framfylgja sjálfir hvar svo sem þeir eru staddir í kerfinu. Þetta er að mínu mati röng nálgun. Alþingi er löggjafinn og löggjafinn á að hafa það verkefni að semja frumvörpin, leggja þau fram. Hann sem slíkur, löggjafinn, getur unnið það í sátt og samlyndi við ráðherrana, við framkvæmdarvaldið. Þessu eigum við að breyta, hv. þingmenn.

Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir talar um að það gæti kostað of mikið og að þekkingin sé ekki fyrir hendi á Alþingi, á nefndasviði Alþingis, til að hægt væri að semja slík frumvörp vegna þess að sérþekkingin búi í ráðuneytunum. Því verður að breyta ef við ætlum að standa undir því nafni að Alþingi sé löggjafinn en ekki eingöngu afgreiðslustofnun þeirra sem hingað koma með frumvörpin. Ég fagna þessum nýju vinnubrögðum hv. þm. Péturs H. Blöndals, að koma með þingsályktunartillögu í þessa veru. Ég vona svo sannarlega að hv. viðskiptanefnd nýti alla þá krafta sem í henni búa og þeim fulltrúum sem þar eru og á nefndasviði til að vinna slíkt frumvarp. Í gegnum tíðina hafa einstaka þingmenn samið frumvörp, aflað sér aðstoðar, búið til frumvörp og lagt þau fram. Það á að vera sú regla sem við þingmenn vinnum með. Hitt á að vera sérstaðan að ráðherrarnir komi með þingmál inn í þingið. Að því leyti fagna ég þessari þingsályktunartillögu, hún ber vott um áræði hv. þingmanns til að reyna að breyta vinnubrögðum innan þings.

Það er annað í þingsályktunartillögunni sem gleður mig, þ.e. efnið sem beðið er um að frumvarp sé samið um. Hæstv. viðskiptaráðherra lagði fram frumvarp, og það var afgreitt til 2. umr. og til nefndar, til laga um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög sem við vorum að klára í dag þar sem m.a. er verið að ræða um samstæðutengsl. Í því frumvarpi sem hv. þm. Pétur H. Blöndal og Ragnheiður E. Árnadóttir fela viðskiptanefnd að semja er talað um krosseignatengsl. Ég held að um sé að ræða sama verkefnið, samstæðutengsl og krosseignatengsl séu slíkt hið sama í hvoru frumvarpi fyrir sig, það þyrfti þá að kanna orðnotkun í frumvörpum almennt þannig að það rugli ekki fyrir utan kannski innihaldið.

Frú forseti. Ég fagna þessum nýmælum hv. þm. Péturs H. Blöndals og ég vona að þetta sé fyrsti vísir að því að þingmenn taki meiri þátt í því að vinna verkefnin, að semja frumvörpin og þingsályktunartillögurnar og sinni þannig því hlutverki sem þeim ber, þ.e. að vera löggjafinn, ekki taka eingöngu við frá framkvæmdarvaldinu og afgreiða heldur vera virkir þátttakendur í því sem hér á að fara fram; að setja landinu lög. Framkvæmdarvaldið á síðan að framfylgja þeim lögum sem Alþingi setur. Eins og ég sagði áðan, og eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði einnig, þá er það sérkennilegt ef embættismenn t.d. Samkeppnisstofnunar setja saman frumvarp um samkeppnislögin sem þeir eiga síðan að framfylgja. Það er jafnkjánalegt og að Fjármálaeftirlitið semji þau frumvörp sem það á síðan að framfylgja.

Ég segi enn og aftur: Þetta ber vott um framsýni, þetta ber vott um kjark, þetta er áskorun til þingmanna um ný vinnubrögð. Ég skora á hv. viðskiptanefnd að taka þessu verkefni fagnandi þannig að við á þessu þingi sjáum frumvarp í þessa veru frá hv. viðskiptanefnd.