137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

endurreisn bankakerfisins -- fundur í viðskiptanefnd.

[13:34]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Það er rétt og satt sem haft er eftir Mats Josefsson, að ekkert land í heiminum hafi lent jafnilla í því og Ísland og hvergi verði eins erfitt og dýrt að koma hagvextinum í gang aftur. Þetta eru því miður ekki ný tíðindi eins og hér var gefið í skyn heldur vitum við að þetta er rétt. Það er haft eftir honum að 85% af vergri landsframleiðslu fari í endurreisn bankakerfisins. Á fjárlögum þessa árs eru 385 milljarðar til að endurfjármagna bankana, 180 milljarðar til að endurfjármagna Seðlabankann vegna þess að það var ekki aðeins bankakerfið sem fór á hausinn heldur Seðlabankinn líka, og líklega, ef mig misminnir ekki, um 20 milljarðar vegna sparisjóðanna, Icebank o.fl. Þetta eru um 500–600 milljarðar kr. eða 50–60% af vergri landsframleiðslu sem hefur dregist saman um 10% eftir hrunið.

Ég reikna með því, án þess að ég hafi haft tök á að kynna mér þetta upprunalega viðtal sem mun vera í Uppsala Nya Tidning, að hér sé átt við brúttóaukningu skulda ríkissjóðs vegna endurreisnar bankanna án þess að ég geti nokkuð um það sagt en það muni lækka aftur þegar eignir verða seldar. Þetta eru gríðarlegir fjármunir en ég hlýt að nota þetta tækifæri til að minna á tvennt: Í fyrsta lagi að þessi mikla skuldaaukning ríkissjóðs er ekki orsökin fyrir því ástandi sem við lifum heldur afleiðingin af 18 ára stjórnarstefnu Sjálfstæðisflokksins og bankahruninu sem við urðum fyrir síðastliðið haust. (Gripið fram í.) Í öðru lagi vil ég leggja áherslu á að við þurfum að byggja upp nýja banka en ekki endurreisa þá sem fyrir voru á sama grunni.