137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

endurreisn bankakerfisins -- fundur í viðskiptanefnd.

[13:40]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir orð annarra hv. þingmanna að manni er farið að bregða ansi illa við að fá fréttir fyrst og fremst í blöðunum í staðinn fyrir að fá upplýsingar innan þingsins um það sem er að gerast í sambandi við hina svokölluðu endurreisn bankakerfisins á Íslandi. Orð sænska bankasérfræðingsins eru náttúrlega sláandi, þar sem hann talar um að kostnaðurinn verði ekki í kringum 300–400 milljarðar eins og formaður viðskiptanefndar heldur fram heldur 1.250 milljarðar. Þarna munar aðeins ef hann er að tala um 85% af vergri landsframleiðslu.

Það sem menn eru kannski líka svo ósáttir við er að þegar við komum saman í síðustu viku var boðað til fundar í viðskiptanefnd og svo var honum aflýst. Það var eins og það væri ekkert sem þyrfti að ræða í nefndinni. Við erum með hrunið bankakerfi og það var ekki ástæða fyrir viðskiptanefnd að koma saman þrátt fyrir að fulltrúar í nefndinni hefðu óskað eftir því að farið yrði í gegnum stöðu bankanna, að farið yrði í gegnum eignamatið á eignum bankanna, þessa skýrslu sem virðist enn þá vera læst inni í fjármálaráðuneytinu. Þessi ósk var ítrekuð á aukafundi sem haldinn var í viðskiptanefnd í hádeginu og formaður viðskiptanefndar talar um að hún muni skoða málið. Þessi svör eru algerlega óásættanleg. Þingmenn eiga rétt á því að fá upplýsingar um það sem er að gerast í sambandi við hina svokölluðu endurreisn bankakerfisins. Það gengur ekki að setja hér mál aftur og aftur í forgang og að ekki skuli tekin fyrir þessi áríðandi mál heldur eigum við í viðskiptanefnd að fara að ræða enn á ný um kynjahlutföll, upplýsingar til hlutafélagaskrár og um starfandi stjórnarformenn frekar en það sem er að gerast og það sem verið er að ræða í fjölmiðlum.