137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

endurreisn bankakerfisins -- fundur í viðskiptanefnd.

[13:45]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Vegna ítrekaðrar umræðu um fundarfall í viðskiptanefnd í síðustu viku vil ég ítreka það sem ég sagði hér í gær. Með eins dags fyrirvara tókst ekki að fá þá tvo aðila sem óskað hafði verið eftir að kæmu á fund nefndarinnar á reglulegum fundartíma sem er á miðvikudagsmorgnum. Engu máli hafði verið vísað til nefndarinnar þegar hér var komið sögu enda þing aðeins starfað, held ég, í tvo daga og því varð fundarfall. Það eru hins vegar komin ein fimm, sex mál ef ekki fleiri til nefndarinnar núna sem við sendum út til umsagnar í hádeginu og ég lofa hv. þingmönnum í viðskiptanefnd því að þeir munu ekki þurfa að kvarta undan fundarfalli eða vandræðum af verkleysi í viðskiptanefnd á næstu dögum.

Óskað var eftir umræðu um frétt í Fréttablaðinu þar sem haft er eftir Mats Josefsson að 85% af vergri landsframleiðslu muni fara í að endurreisa, eins og hann kallar það, bankakerfið. Mér reiknast svo til ef það er sú tala sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson nefndi, 1.250 milljarðar, sem ég átta mig ekki alveg á, þá ætti landsframleiðslan að vera um 1.400 milljarðar. Þetta eru aðrar tölur en ég hef séð.

Við vitum að það er 10% og jafnvel meira fall í landsframleiðslunni á þessu ári. (Gripið fram í.) Ég get ekki staðið hér í beinum samtölum úr ræðustól, hv. þingmaður, heldur vitnaði ég í orð þingmannsins. Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan að bankakerfið hér hrundi með miklum skelli og þetta verður okkur gríðarlega dýrt. En við skulum ekki, hv. þingmenn, rugla saman orsök og afleiðingu í þeim efnum. Ég hygg, eins og ég sagði (Forseti hringir.) áðan, að það muni vera nær 50–60% af vergri landsframleiðslu sem hér um ræðir og þá vísa ég í þær tölur sem áður hafa verið lagðar fyrir þingið. Ég hef ekki (Forseti hringir.) annað.