137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

fjármálafyrirtæki.

33. mál
[14:30]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég bíð þá bara eftir svörum við því sem ég spurði um. Hæstv. ráðherra svarar því í umræðunni á eftir. Þær spurningar voru allar fluttar á íslensku og þarf ekkert að fletta upp í sænskri orðabók til að komast að niðurstöðu þar.

Hins vegar er athyglisvert að hæstv. ráðherra telji að beinn og óbeinn kostnaður verði hugsanlega um 1.250 milljarðar og það er þá bara svo, það mat hæstv. viðskiptaráðherra. Það væri þó fróðlegt að heyra sjónarmið hæstv. ráðherra varðandi það sem snýr að endurreisn bankanna. Ef hann telur ástæðu til að upplýsa þingið um það og þær uppákomur sem orðið hafa á undanförnum dögum held ég að það sé prýðilegt tækifæri til þess nú. Hæstv. ráðherra þarf að meta hvað hann telur rétt að upplýsa þing og þjóð um og hér er tækifæri í tengslum við þetta mál sem kemur endurreisn bankanna svo sannarlega við. Ég spurðist sérstaklega fyrir um það sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson vísaði til í dag og í umræðunni áðan, virðulegi forseti. Það verður fróðlegt að sjá hvort hæstv. viðskiptaráðherra telur ástæðu til að upplýsa þingheim eitthvað frekar um þessi mál sem svo sannarlega eru mikið í umræðunni nú en því miður eru þau aðallega í umræðunni í fjölmiðlum. Þar koma þau fyrst fram en við þingmenn eltumst við þau. Kannski verður breyting eftir ræðu (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra.