137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

fjármálafyrirtæki.

33. mál
[14:36]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Vegna orða formanns hv. viðskiptanefndar skal því til haga haldið að við munum gera hvað við getum til þess að málið fái góða umfjöllun í nefndinni og erum alveg tilbúin í þessum málum sem öðrum mikilvægum að leggja mikið á okkur til að svo megi verða. En ég vek athygli á því að við gefum ekki neinn afslátt af því að fá fund um endurreisn bankakerfisins.

Hæstv. ráðherra hefur ekki séð ástæðu til að fara neitt betur yfir mál en hann hefur gert hér. Hæstv. ráðherra hafði tækifæri til að gera það og hefði það að mínu mati verið kjörið tækifæri til að upplýsa þingheim um ýmislegt sem verið hefur í umræðunni þannig að það gangi ekki út á það að við séum að elta allt sem gerist í blöðunum eða í öðrum fjölmiðlum. En sú er ekki raunin, virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra ætlar ekki að fara neitt meira yfir það nema hann biðji um orðið núna á meðan ég tala og þá er afskaplega mikilvægt og það er krafa okkar að fá fund í nefndinni um málið í heild sinni.

Það er ekki rétt sem hér hefur komið fram, ég hef fengið það staðfest að í efnahags- og viðskiptanefnd hafi verið farið yfir þann þátt mála enda skiptir það í rauninni ekki máli, virðulegi forseti, vegna þess að þetta mál heyrir undir viðskiptanefnd. En niðurstaðan er sú að hér er mál sem er einn hluti af endurreisn bankakerfisins. Við munum leggja okkur öll fram sem erum í stjórnarandstöðunni í viðskiptanefnd til að málið fái góða umfjöllun. Hæstv. ráðherra sér ekki ástæðu til þess að upplýsa okkur frekar um þau mál sem tengjast endurreisninni. Við förum enn og aftur fram á að fá fund sem allra fyrst um það málefni og funda eins mikið og við þurfum til að fá glögga mynd af því máli enda er í rauninni óeðlilegt að taka það fyrir og klára það án þess að við höfum séð heildarmyndina.