137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

erfðabreyttar lífverur.

2. mál
[14:54]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Sem formaður umhverfisnefndar vil ég fullvissa hv. 4. þm. Norðvest. um að vitaskuld verður mjög vel farið yfir þessi atriði í starfi nefndarinnar eins og alltaf er gert við þingmál sem þetta. Það verður kallað eftir umsögnum allra þeirra sem hugsanlega geta átt hagsmuna að gæta, félagasamtaka, fyrirtækja, stofnana og fagaðila.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að reglur sem þessar mega ekki og eiga ekki að íþyngja fyrirtækjum eða fyrirtækjum í þróun, en það er nú einu sinni þannig að enginn er hann, ókeypis hádegisverðurinn, hvorki í þessu né öðru, og fyrirtæki þurfa að bera eðlilegan kostnað af opinberu eftirliti, vöktun og slíku eins og gert er í öðrum atvinnugreinum. Þess er gætt að sá kostnaður verði ekki ótilhlýðilegur. Auðvitað eru settar skyldur á fyrirtækin en þau hafa ábata og hagnaðarvon af starfsemi sinni, öðruvísi gengi þetta varla.

Ég tek einnig undir með hv. þingmanni um sérstöðu landsins, sérstöðu eyjunnar Íslands í Norður-Atlantshafi, ekki síst sérstöðu lífríkisins. Hér erum við ósköp einfaldlega að innleiða sams konar reglur og gilda alls staðar annars staðar í Evrópu. Við erum reyndar að gera það á elleftu stundu, jafnvel þeirri tólftu, en þannig er það líka stundum hér. Okkur ber að gæta þess að eyðileggja ekki hina miklu sérstöðu íslenska lífríkisins.